Athygli ríkisendurskoðanda hefur verið vakin á stigvaxandi hækkun kostnaðaráætlunar væntanlegrar Fossvogsbrúar sem kölluð er Alda. Samkvæmt nýjustu áætlunum er verðmiðinn á brúnni 8,8 milljarðar króna.
Aukinheldur má gera ráð fyrir að kostnaðurinn sigli umtalsvert fram úr áætlunum og geti jafnvel numið 15 milljörðum kóna þegar upp verður staðið.
„Ríkisendurskoðandi er að skoða málið,“ segir Jón Gunnarsson alþingismaður við Morgunblaðið.
„Þetta mál er allt með hreinum ólíkindum og þær grundvallarbreytingar sem orðið hafa á verkefninu frá því Alþingi fjallaði um það á sínum tíma eru miklar,“ segir Jón.
Hann staðfestir að hafa gengið á fund ríkisendurskoðanda í vetrarbyrjun ásamt Vilhjálmi Árnasyni alþingismanni, þar sem þeir viðruðu áhyggjur sínar af þróun mála og sívaxandi kostnaðarhækkunum Fossvogsbrúar skv. áætlunum og hvort þær ættu sér eðlilegar skýringar.
Jón bendir á að Samgöngusáttmálinn hafi verið í endurskoðun frá sl. sumri og ekki bóli á niðurstöðu þrátt fyrir að hafa átt að taka örfáar vikur. Fossvogsbrúin er eitt þeirra samgönguverkefna sem sáttmálinn tekur til.
Jón segir eðlilegt að þróun Fossvogsbrúarverkefnisins verði skoðuð, bæði út frá stórhækkaðri kostnaðaráætlun en einnig út frá stjórnsýslunni og þeim miklu breytingum sem orðið hafa á verkefninu frá því það var afgreitt á sínum tíma í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
„Þar lá fyrir gróft kostnaðarmat borgarlínu sem hefur reynst marklaust. Þetta er risaverkefni og erfitt að sjá hvernig ríkissjóður á að vera í stakk búinn til að fjármagna það,“ segir Jón Gunnarsson.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is