Innviðaráðherra segir ummæli framkvæmdastjóra Staðlaráðs í Kastljósi í gær hafa komið sér á óvart. Fjallað var um að nýbyggingar, til dæmis á jarðskjálftasvæðum, yrðu ekki eins öruggar í framtíðinni vegna nýrra steypustaðla.
Staðlaráð varar við því að á næstu vikum eða mánuðum verði refsilaust að hanna, byggja eða selja fólki hús sem standast ekki þær kröfur sem hingað til hafa verið gerðar hér á landi, með tilliti til jarðskjálfta og veðurfars.
Framkvæmdastjóri Staðlaráðs sagði í Kastljósi í gær að ríkið verði að gyrða sig í brók. Að óbreyttu gætu orðið meiriháttar breytingar á reglum um hvernig við byggjum hús hér á landi og öryggi þeirra.
Tilvísun í byggingareglugerð vísi í eitthvað sem sé ekki til og nýtt regluverk hafi þegar verið samþykkt í Evrópu. Viðauka þurfi ofan á regluverkið sem henti íslenskum aðstæðum. Stjórnvöldum beri að sjá um að það verði gert og standa straum af kostnaði, en það hafi ekki fengist í gegn. Staðlaráð hafi barið að dyrum hjá ráðuneytinu síðustu fjögur ár vegna þessa, án árangurs.
Vel hægt að setja sérreglur á Íslandi
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segist hissa á ummælum framkvæmdastjórans.
„Ég held að það sé vika síðan við sendum samkomulag til Staðlaráðs sem var tilboð til þeirra og er þá óundirritað og engin viðbrögð frá þeim varðandi það. Á sama tíma og í ráðuneyti sem fer með Staðlaráðið, sem er reyndar ekki innviðaráðuneytið, held ég að framlag hafi verið hækkað á síðastliðnu ári um 30 milljónir. Úr 70 í 100 milljónir. Þannig að ég verð að segja alveg eins og er að þetta samtal þarna í gær kom mér afar mikið á óvart.“
Tillaga að samkomulagi um greiðslur næstu árin hafi verið send með tölvupósti til Staðlaráðs 26. janúar.
„Ofan í þær 100 milljónir, eða rúmlega 70 prósent af þeim tekjum sem Staðlaráð er með, sem koma frá ríkinu.“
Sigurður Ingi segir það hafa komið sér á óvart að engin svör hafi enn borist. Hann segir vel hægt að setja á séríslenska staðla fyrir íslenskar aðstæður.
„Jú og það væri meira að segja hægt að setja það bara í reglugerð og vísa ekki í staðla. En þessi vinna er bara í gangi og ég hef væntingar til þess að hún geti bara gengið fínt.“
Heimild: Ruv.is