Home Fréttir Í fréttum Yfir hundrað milljónir í tekjur af lyftuferðum í Hallgrímskirkju árlega

Yfir hundrað milljónir í tekjur af lyftuferðum í Hallgrímskirkju árlega

179
0
Hallgrimskirkja

Án þess að lítið sé gert úr átroðningi ferðamanna við Geysi og Gullfoss er það engu að síður svo að flestir erlendir ferðamenn koma og eru í miðborg Reykjavíkur. Ekki er óvarlegt að ætla að flestir þeir sem koma til Reykjavíkur komi við á Skólavörðuholtinu og skoði helsta kennileiti landsins: Hallgrímskirkju.

<>

Tekjurnar koma sér vel
Ársreikningur Hallgrímskirkju fyrir árið 2014 er í vinnslu en árið 2013 komu 450 þúsund manns í kirkjuna, sem þýðir að 1.200 manns komu að meðaltali til að skoða kirkjuna dag hvern. Fjórðungur þeirra fer í turninn og árið 2013 fóru 114 þúsund gestir upp með lyftunni til að skoða sig um. Gjald fyrir ferð upp með lyftunni fyrir fullorðna er 800 krónur sem er stærstur hluti ferðamanna. Þetta þýðir einfaldlega að tekjur sem kirkjan hefur af slíkum ferðum nemur tugum milljóna króna, allt að 90 milljónum króna.

„Ég áætla að aukning ferðamann árið 2014 sé að minnsta kosti 20 prósent,“ segir Jónanna Björnsdóttir framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju. Það þýðir þá að í fyrra hafa bæst allt að 18 milljónir við þessar tekjur. Jónanna bendir á að allir fjármunir sem koma af turngjaldi fari í rekstur þessa stóra húss sem Hallgrímskirkja er, svo sem viðhald, hita, rafmagn, laun og afborgun lána sem voru í árslok 2014 um 400 milljónir króna. Og áætlaður kostnaður við viðhald kirkjunnar eru 35 milljónir króna fyrir árið 2015.

Guðshús og ferðamannaþjónustu
Jónanna segir nú unnið að því að setja upp sérstakan talningabúnað svo hægt verði að segja nákvæmlega til um það hver fjöldinn er sem kemur í kirkjuna ár hvert. Hún segir það vissulega rétt að hinn mikli ferðamannastraumur setji mark sitt á starfsemina, og líkist á stundum meira því sem einkennir ferðaþjónustu fremur en það að halda utan um guðshús. „Ekki er hægt að segja annað. Og það er komið til að vera. Meðan þessi straumur ferðamanna er til landsins, hversu lengi sem það endist? En, Ísland er náttúrlega mjög vinsæll ferðamannastaður, það vita allir. Tala nú ekki um hér í miðborginni.“

Þau í Hallgrímskirkju meta það sem svo að fjöldinn sem kemur nú, að vetrardegi, til að skoða kirkjuna, sé á við það sem var á háannatíma yfir sumar fyrir tveimur árum. Slík er aukningin. „Já, það er töluverð aukning. Meiri aukning núna í janúar, febrúar og mars en var í fyrra. Reyndar var mikið af ferðamönnum í janúar í fyrra en það datt niður í febrúar og mars. Mikið er um að hópar, skólahópar, komi erlendis frá,“ segir Jónanna.

Heimild: Visir.is