Undirbúningur er hafinn að framkvæmdum við nýjan veg og brú yfir Skjálfandafljót í Köldukinn. Stefnt er að því að taka þessi mannvirki í notkun eftir fjögur ár eða árið 2028.
Núverandi brú er næstum 90 ára gömul, byggð árið 1935. Brúin er orðin svo léleg að grípa þurfti til þess ráðs í fyrrasumar að loka henni fyrir umferð vöru- og fólksflutningabíla. Hún er tæpir 200 metrar að lengd og var á sinni tíð með lengstu brúm á Íslandi. Nú er aðeins fólksbílum heimilt að aka um hana.
Yfir þrír milljarðar króna áætlaðir
Samkvæmt upplýsingum G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, er verkið í drögum að samgönguáætlun, tímasett árin 2026-2028. Þar eru 3.100 milljónir króna áætlaðar í verkið.
Þingeyingar hafa margoft ályktað um stöðu samgöngumála við Skjálfandafljót. Báðar brýrnar yfir fljótið, í Köldukinn og Fosshóli við Goðafoss, eru gamlar og einbreiðar. Um þessar brýr fara allir flutningar með fólk og vörur.
Samkvæmt samgönguáætlun eru 1.520 milljónir ætlaðar til byggingar nýrrar brúar um Skjálfandafljót við Fosshól á öðru tímabili, sem er 2029-2033. Núverandi brú er rúmlega 50 ára gömul, byggð 1972.
Vildu hraða framkvæmdum
Byggðaráð Norðurþings sendi í fyrrasumar ályktun til Vegagerðarinnar vegna umferðartakmarkana á brúnni í Köldukinn og hvatti ríkisstjórnina til þess að hraða áformum sínum um nauðsynlegar endurbætur á umræddum vegkafla. Þetta verkefni hafi alltof lengi setið á kantinum, eins og það var orðað.
Þá sendi stjórn og trúnaðarráð verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík frá sér ályktun sl. haust um samgöngumál í Þingeyjarsýslum. Þar eru þingmenn hvattir til að flýta framkvæmdum, bæði í Köldukinn og við Fosshól.
Kaldakinn, eða Kinn, kallast landsvæðið sem nær frá bænum Krossi í mynni Ljósavatnsskarðs og norður í Bjargarkrók við botn Skjálfanda.
Heimild: Mbl.is