Samanlagt tap Munck á Íslandi, frá því að það hóf starfsemi hér á landi árið 2017 og þar til það hætti starfsemi árið 2022, nam um 6,5 milljörðum króna.
Saga Construction ehf., félag utan um starfsemi verktakafyrirtækisins Munck á Íslandi, tapaði 461 milljónum króna á síðasta rekstrarári sem lauk í lok september 2022 samanborið við 482 milljón króna tap árið áður.
Í lok rekstrarársins hafði félagið hætt allri starfsemi og var eigið fé félagsins þá orðið neikvætt um 3,1 milljarða króna.
Frá því að félagið hóf starfsemi hér á landi í byrjun árs 2017 hefur reksturinn verið erfiður og félagið dregið saman seglin fljótt.
Þannig nam velta félagsins meira en sjö milljörðum króna á rekstrarárinu 2017-2018 og kom þá m.a. fram í ársreikningi að óvíst væri um framtíðarfjármögnun félagsins og að vafi leiki um hvort félagið væri rekstrarhæft.
Veltan dróst í framhaldinu hratt saman og nam einungis 1,6 milljörðum króna tveimur árum síðar.
Félagið hóf starfsemi í byrjun árs 2017 eftir að danska félagið Munck Gruppen keypti verktakafyrirtækið LNS Sögu hér á landi. Samanlagt tap Munck á Íslandi frá þeim tíma og þar til það hætti starfsemi árið 2022 nam tæplega 6,5 milljörðum króna.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.
Heimild: Vb.is