Home Fréttir Í fréttum Húsið verið notað sem spítali frá upphafi

Húsið verið notað sem spítali frá upphafi

120
0
Ljósmynd: Ríkiskaup

Húsi Hvítabandsins sem Lýður Guðmundsson keypti fyrir 496 milljónir króna af ríkissjóði hefur hýst spítala frá því það var tekið í notkun árið 1934.

<>

SK 37 ehf, félag Lýðs Guðmundssonar sem oftast er kenndur við Bakkavör, festi í byrjun nóvember kaup á húsi Hvítabandsins að Skólavörðustíg 37 fyrir 496 milljónir króna af ríkissjóði. Birt stærð fasteignarinnar er 1.065 fermetrar. Því nam fermetraverð eignarinnar 466 þúsund krónum.

Eignin var auglýst til sölu í lok apríl á síðasta ári og sá Ríkiskaup um söluna. Ásett verð var 495 milljónir króna. Eignin var einnig auglýst til sölu í september árið 2022 en þá var ásett verð 550 milljónir króna.

Ríkið keypti húsið á 70 milljónir
Hvítabandið er næst elsta kvenfélag landsins, stofnað árið 1895 og er enn starfandi. Samkvæmt Borgarsögusafni Reykjavíkur lét félagið byggja húsið að Skólavörðustíg 37 og var það vígt í febrúar árið 1934.

Upphaflega átti það að verða hvíldar- og hressingarheimili fyrir konur að aflokinni spítalavist, en vegna mikils skorts á sjúkrarúmum í Reykjavík var því breytt í sjúkrahús.

Sjúkrarúmin voru 38. Sjúkrahúsið var fyrst rekið sem sjálfseignarstofnun en árið 1943 fékk Reykjavíkurborg húsið að gjöf með öllum áhöldum og innanstokksmunum. Sjúkrahúsið var þar með fyrsta almenna sjúkrahúsið sem yfirvöld í höfuðstaðnum ráku.

Á heimsíðu Hvítabandsins segir að félagið hafi alla tíð haft sterka tengingu við sjúkrahúsið og látið sig starfið varða. Landspítalinn rak síðast göngudeildir innan veggja hússins.

Í desember 1998 var gengið frá samningum þess efnis að íslenska ríkið tæki yfir eignir Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ríkið greiddi Reykjavíkurborg 70 milljónir króna fyrir hús Hvítabandsins að Skólavörðustíg 37 samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá því í nóvember árið 1999. Sé miðað við verðlag dagsins í dag nam kaupverðið rúmlega 220 milljónum króna.

Heimild: Vb.is