Heilmiklar framkvæmdir fara fram í Borgarbyggð á nýju ári en þar ber helst að nefna byggingu nýs fjölnotaíþróttahúss í Borgarnesi og endurbyggingu á grunnskólanum á Kleppjárnsreykjum. Kostnaðurinn við þessi tvö verkefni er um þriðja milljarð króna.
Það er engin lognmolla í Borgarbyggð um þessar mundir, miklar framkvæmdir víða í gangi, bæði á vegum sveitarfélagsins og einkaaðila og þá eru fjölbreytt plön í pípunum um meiri framkvæmdir á næstu árum. Íbúar sveitarfélagsins eru um 4.300.
En hver eru stærstu verkefnin nú á árinu 2024? Stefán Broddi Guðjónsson er sveitarstjóri Borgarbyggðar.
„Það er verið að endurbyggja Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og það er mjög stór framkvæmd og jafnframt er á áætlun hjá okkur að hefja framkvæmdir við fjölnotaíþróttahús, eða knatthús og það er á svæðinu þar sem íþróttavöllurinn er og verður þar yst eða eins og kallað er á æfingasvæðinu,“ segir Stefán.
Stefán Broddi segir að bæði þessi verkefni taki í fjárhagslega en hann er þó ekkert að kvarta enda fjárhagsstaða sveitarfélagsins góð.
„Eigum við ekki að segja að þessi tvö verkefni eru eitthvað á þriðja milljarða, samtals.“
En hvenær má reikna með því að fjölnotaíþrótthúsið verði tekið í notkun, knatthöllin?
„Ég vona að hún verði tekin í notkun 2025, við vonum það. En það skiptir máli að við tímasetjum rétt því það er líka fram undan landsmót, Unglingalandsmót hér í Borgarnesi í sumar. Þannig að við stefnum á að hefja framkvæmdir eftir það landsmót,“ segir Stefán.
Stefán Broddi segir að einkaaðilar séu með mjög fjölbreytt og spennandi verkefni víða í sveitarfélaginu eins og byggingu nýrra íbúða í Borgarnesi og á Hvanneyri. Stærsta verkefnið sé þó Brákarey í Borgarnesi, hvernig skipulaginu verði háttað þar.
„Ég vonast til að við getum kynnt deiliskipulag fljótlega en það er gríðarlega stór framkvæmd má segja og býður upp á mikil tækifæri fyrir okkur”, segir Stefán sveitarstjóri.
Heimild: Visir.is