Home Fréttir Í fréttum Kaupa hús Hvítabandsins á hálfan milljarð

Kaupa hús Hvítabandsins á hálfan milljarð

136
0
Lýður og Ágúst Guðmundssynir stofnuðu Bakkavör fyrir 37 árum síðan. Ljósmynd: Haraldur Jónasson

Bakkavararbræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hafa fest kaup á húsi Hvítabandsins að Skólavörðustíg 37 fyrir 496 milljónir króna af ríkissjóði.

<>

SK 37 ehf, félag í eigu Bakkavararbræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, festi í byrjun nóvember kaup á húsi Hvítabandsins að Skólavörðustíg 37 fyrir 496 milljónir króna af ríkissjóði. Birt stærð fasteignarinnar er 1.065 fermetrar. Því nam fermetraverð eignarinnar 466 þúsund krónum.

Eignin var auglýst til sölu í lok apríl á síðasta ári og sá Ríkiskaup um söluna. Ásett verð var 495 milljónir króna. Eignin var einnig auglýst til sölu í september árið 2022 en þá var ásett verð 550 milljónir króna.

Byggt fyrir 91 ári
Í fasteignaauglýsingu kom fram að húsið sé ekki friðað, en verndun götumyndar hafi þó verið í gildi frá 2. desember árið 2008. Um sé að ræða eitt fallegasta hús í hjarta borgarinnar á vinsælum stað við Skólavörðustíg. Húsið er byggt árið 1933, hannað og teiknað af Arinbirni Þorkelssyni. Það hefur frá upphafi hýst sjúkrahús kvenfélagsins Hvítabandsins.

Jafnframt segir í auglýsingunni að húsið sé þrílyft með kjallara, risi, stórum hornkvisti og þremur gluggakvistum, byggt úr steinsteypu, múrsléttað utan og með þakhellu á þaki.

„Glæsilegt steinsteypt hornhús sem er kennileiti á horni Kárastígs og Skólavörðustígs. Húsið hefur einnig menningarsögulegt og listrænt gildi.“

Þá vilji Hvítabandið árétta að sögu hússins verið haldið til haga af tilvonandi eigendum hússins. Séð verði til þess að viðhaldi á minnismerki um sögu hússins verði sinnt af eigendum hússins.

Húsið að Skólavörðustíg 37 var byggt árið 1933.
© Ríkiskaup (Ríkiskaup)

Í Húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur kemur fram að húsið beri ýmis einkenni þeirra húsa sem byggð voru í tíð steinsteypuklassíkur hér á landi, einkum hvað form og gluggasetningu varðar. Undir þakskeggi sé einnig skrautband í klassískum stíl.

Heimild: Vb.is