Unnið er að viðbót við fyrsta áfanga í breikkun Hringvegar frá Fossvöllum að Lögbergsbrekku.
Vinnu við fyrsta áfanga, sem er um 3,3 km langur vegkafli, lauk sumarið 2023 en nú er unnið að viðbót við fyrsta áfanga sem felur í sér breikkun á 950 metra kafla frá Lögbergsbrekku og að Gunnarshólma, gerð hliðfærðra T-vegamóta auk hliðarvega. Tengingum inn á Hringveg fækkar og þar með eykst öryggi vegfarenda.
Fyrsti hluti verkefnisins bar heitið Hringvegur (1) Fossvellir – Lögbergsbrekka. Verkið snerist um tvöföldun Suðurlandsvegarins frá fjögurra akreina vegi á Fossvöllum og vestur fyrir Lögbergsbrekku ásamt hliðarvegum. Lengd útboðskaflans var um 3,3 km.
Tilboð í verkið voru opnuð 13. júlí 2021. Samið var við Jarðval sf. og Bjössa ehf. sem áttu lægsta tilboð í verkið. Mannvit sá um eftirlit með verkinu en verkfræðistofan Hnit sá um hönnun.
Í verkinu fólst bygging tveggja akreina norðan við núverandi veg með 11 m miðdeili, en það þýðir að 11 metrar eru milli akbrauta sem liggja í gagnstæðar áttir.
Ofanvatnsræsi voru lengd og byggð undirgöng fyrir ríðandi umferð. Göngin eru um 50 m löng, 4,5 m breið og um 4,0 m há. Þau eru bogalaga úr báruðum galvanhúðuðum stálplötum sem eru boltaðar saman í boga. Að reiðgöngunum var lagður nýr reiðstígur, um 380 m langur.
Vegtenging að Waldorfskóla var breytt í þessum áfanga en tengingin var færð niður í Lækjarbotna. Vegurinn að Waldorfskóla er 1,2 km að lengd og klæddur bundnu slitlagi.
Ákveðið var að bæta við verkið 950 metra kafla frá Lögbergsbrekku og að Gunnarshólma, gerð hliðfærðra T-vegamóta og hliðarvegum.
Framkvæmdir hófust sumarið 2023. Útbúin verða tvö ný gatnamót á leiðinni til að fækka tenginum inn á þjóðveginn, en við þessa framkvæmd munu fimm tengingar sameinast í eina en það var eitt af meginmarkmiðum framkvæmdarinnar, að fækka tengingum, til að auka umferðaröryggi.
Einnig voru gatnamótin að Lækjarbotnum og þar með Waldorfskóla færð vestar. Tengingin frá Hringvegi er 220 metrar.
Verklok eru áætluð sumarið 2024.
Heimild: Vegagerdin.is