Byrjað er að grafa fyrir heitavatnslögn neðanjarðar, til að tryggja Suðurnesjamönnum heitt vatn, renni hraun að gömlu Njarðvíkuræðinni.
Njarðvíkuræð er sérstaklega mikilvæg heitavatnslögn, heitt vatn frá orkuverinu í Svartsengi rennur um hana til heimila og fyrirtækja á Suðurnesjum.
Hátt í 30 þúsund manns treysta á heitt vatn úr þessri lögn. Sá galli er á gjöf Njarðar að hún liggur ofanjarðar á stöplum og fer að hluta um lægð í landslaginu, þar sem óttast er að hraun gæti runnið að henni og eyðilagt hana.
Ef til þess kæmi yrði heitavatnslaust víðast hvar á Reykjanesskaganum, utan Grindavíkur. Þangað liggur sér lögn frá Svartsengi.
Byrjað að grafa
Áform voru uppi um að moka hreinlega undir lögnina og yfir hana, en Ari Guðmundsson byggingarverkfræðingur hjá Verkís sagði í viðtali við Spegilinn að lögnin væri komin til ára sinna og ekki víst að hún þyldi það.
Í staðin á að reyna hjáveituaðgerð. Leggja nýja lögn neðanjarðar í lægðinni og tengja framhjá. Ari segir að byrjað sé að grafa fyrir löginni en að verkið sé umfangsmikið og taki einhvern tíma.
Rætt var við Ara Guðmundsson í Speglinum um Njarðvíkuræð og fleiri innviði, hvernig verja eigi rafmagnsmöstur og hvað skuli gert með Grindavíkurveg ef að hraun rennur að honum.
Heimild: Ruv.is