Home Fréttir Í fréttum Heitt vatn streymir til Eiða fyrsta sinni

Heitt vatn streymir til Eiða fyrsta sinni

107
0
Skrúfað frá í tengistöð HEF á Egilsstöðum í morgun. Eftirleiðis ætti rafmagnskostnaður íbúa á Eiðum að lækka töluvert. Mynd aðsend

Íbúar og gestir í einum 22 byggingum að Eiðum fengu laust eftir klukkan ellefu í morgun hitaveitu í hús sín fyrsta sinni. Aðeins tók tæpa fimm mánuði að leggja heitavatnsleiðslu til svæðisins.

<>

Um stóran áfanga er að ræða enda verið rætt um hitaveitu til þessa kunna svæðis og fyrrum menntaseturs um áratugaskeið.

Slíkt stórlækkar rafmagnsreikninga íbúa og rekstraraðila og var meðal annars ein ósk þeirra sem keyptu Eiðasvæðið fyrir nokkrum misserum síðan og hyggja þar á endurnýjun og uppbyggingu næstu árin.

Aðeins eru um fimm mánuðir síðan HEF-veitur hófu það verk að leggja hitaveitulagnir á staðinn frá Egilsstöðum og að gamla Alþýðuskólanum en það þykir vel af sér vikið á ekki lengri tíma.

Til að byrja með munu fjórar stærri byggingar á Eiðum auk átján heimila njóta heita vatnsins en ráðgert er að tengja jafnframt ein sautján sumarhús strax næsta vor.

Að sögn framkvæmdastjóra HEF, Aðalsteins Þórhallssonar, verður rennslið til að byrja með um fimm lítrar á sekúndu en alls gera áætlanir ráð fyrir allt að 120 þúsund rúmmetrum árlega fyrst um sinn.

Fyrirséð er að vöxtur verði í byggð á Eiðum næstu árin og ráð fyrir því gert í mælingum fram í tímann. Alls verður um fjögurra prósenta aukningu að ræða í heildarvinnslu HEF. Kostnaður vegna verksins verður um 300 milljónir króna alls.

Heimild: Austurfrett.is