Home Fréttir Í fréttum Á­kveðnar sprungur mögu­lega varð­veittar

Á­kveðnar sprungur mögu­lega varð­veittar

103
0
Þeim sprungum sem slíta í sundur vegi og eyðilögðu lagnir verður lokað en beðið verður með að taka ákvörðun um aðrar sem ekki hamla för um bæinn eða þar sem skemmdar lagnir er að finna. VÍSIR/VILHELM

Bæjarráð Grindavíkur ákvað á fundi sínum í gær að fresta viðgerð á ákveðnum sprungum í bænum. Það verði ákveðið síðar hvort að þeim verði leyft að vera sem einskonar minnisvarða um náttúruhamfarirnar þann 10. nóvember síðastliðinn.

<>

Í fundargerð bæjarráðs segir að það eigi að horfa á verkefnið til framtíðar. Það er hvaða sprungur eða holur sé vilji til að halda í sem áfangastað fyrir ferðamenn.

„Við erum að reyna að loka þeim sprungum sem slíta í sundur vegi og taka lagnakerfið í sundur. En það kom álitamál hvort einhverjar af þessum sprungum, sem eru utan alfaraleiðar og hægt að merkja, að beðið væri með að fylla þær,“ segir Hjálmar Hallgrímsson formaður bæjarráðs.

Hjálmar segir að ábending hafi borist frá Ferðamálastofu.
STÖÐ 2

Hann segir að það liggi ekki á að laga þær sprungur sem engin hætta stafi af og það sé því stefna bæjaryfirvalda að taka sér tíma til að skoða málið í rólegheitum.

„Það kom ábending frá Ferðamálastofu að þetta gæti verið sögulegt,“ segir Hjálmar og að í því ljósi hafi þessi ákvörðun verið tekin.

Bíða með sprungur utan alfaraleiðar
Hann segir þær sprungur í forgangi sem hamli för um bæinn eða þar sem lagnir hafi skemmst. En þær sem séu utan alfaraleiðar verði merktar og skoðaðar seinna. Spurður hvort einhverjar ákveðnar sprungur séu í skoðun fyrir þetta nefnir Hjálmar Stamphólssprunguna.

Grindavík jarðhræringar

„Hún liggur frá kirkjunni og yfir bílastæðið hjá íþróttahúsinu, og áfram norðvestur og við Salthúsið. Þetta er utan vega en tekur planið í tvennt. Okkur liggur ekki á en það þarf að merkja þetta,“ segir Hjálmar og að helst sé horft til þess að ekki sé verið að hamla umferð um Ránargötu eða Austurveg.

„Það er hugmyndin okkar. Að vera ekkert að flýta okkur og skoða þetta betur þegar rykið sest,“ segir Hjálmar.

Hann segir verkfræðistofuna Eflu nú vinna að því að merkja allar sprungur í bænum. Sumar sjáist vel en aðrar sjáist ekki og hangi jafnvel bara saman á grasinu.

Hann segir að annars gangi viðgerðir vel í bænum og vonir standi til að viðgerðir við raflagnir klárist fyrir helgi. Í gær var birt kort á heimasíðu bæjarins þar sem má sjá stöðu lagnakerfisins. Hann segir það hafa verið mikinn létti að sjá hversu stór hluti kerfisins er í lagi.

„Það er allur vesturbærinn. Það eru góðar fréttir líka í þessu.“

Spurður um framhaldið segir Hjálmar það alltaf stefnuna að íbúar komist aftur heim til að gista. Það ráðist þó aðeins á hættumati vísindamanna Veðurstofu og almannavarna hvenær það gerist.

„Við þurfum að fara eftir því. Hver dagur sem líður sem er rólegt yfir skýrast hlutirnir eitthvað en það er ómögulegt að áætla hvenær við fáum að fara heim til að gista.“

Heimild: Visir.is