Forvali vegna byggingar nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík er lokið og haldið verður lokað útboð á milli þriggja umsækjenda sem komust í gegnum forvalið.
Fyrirtækin þrjú, sem halda áfram eftir forvalið, Reginn hf., Kaldalón hf. og Reykjarstræti hf. (ÞG verktakar ehf.) eiga nú í viðræðum við Ríkiskaup, sem hefur umsjón með verkefninu, en nýja byggingin verður 1.640 fermetrar og mun fullbúin þjóna um 15.000 íbúum Reykjanesbæjar.
Eftir að byggingu húsnæðisins verður lokið mun ríkið mun leigja aðstöðuna til 25 ára. Reykjanesbær leggur til lóð fyrir heilsugæslustöðina á Stapabraut 2.
Gert er ráð fyrir að aðstaðan verði afhent í byrjun júní 2025 og þá geti heilsugæslustöðin opnað.
Deiliskipulag lóðarinnar heimilar byggingu á tveimur hæðum á lóðinni. Heilsugæslustöðin verður á jarðhæð, en umsækjendum er í sjálfsvald sett hvernig efri hæð yrði nýtt, en gerð er rík krafa um að hagnýting hennar valdi ekki starfsemi heilsugæslu ónæði.
Gerðar eru ríkar kröfur til bjóðnda. Þannig skulu þeir meðal annars standa í skilum með opinber gjöld, hafa yfir að ráða að minnsta kosti fjórum 800 fermetra fasteignum í útleigu, vera með 1.000 milljónir í eigið fé og hafa stýrt að minnsta kosti einu verkefni af svipuðum toga á síðustu fimm árum, segir í forvalslýsingu.
Heimild: Sudurnes.net