Home Fréttir Í fréttum Boðar mikil vandræði ef Sundabraut verður lögð ofan á gamla ruslahauginn í...

Boðar mikil vandræði ef Sundabraut verður lögð ofan á gamla ruslahauginn í Gufunesi

186
0
Mikið magn af allskonar úrgangi er á svæðinu. Mynd: Dv.is

Það getur haft í för með sér ýmiss konar hættur ef hróflað verður við gamla urðunarstaðnum á Gufunesi vegna fyrirhugaðrar lagningar Sundabrautar.

<>

Þetta kemur fram í umsögn Umhverfisstofnunar við matsáætlun vegna umhverfismats Sundabrautar sem Vegagerðin, í samráði við Reykjavíkurborg, hefur lagt fram.

Gríðarlegt magn af allskonar sorpi
Í umsögninni er bent á að lagðir hafi verið fram valkostir þar sem fyrirhugað er að hluti Sundabrautar liggi um aflagðan urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Gufunesi. Urðunarstaðurinn var aflagður að mestu um 1990 og að fullu árið 2001.

„Varlega áætlað voru urðuð um 5 milljón rúmmetrar af óflokkuðum úrgangi, þ.m.t. spilliefnum, á urðunarstaðnum. Umhverfisstofnun bendir á að haugar sem þessir eru viðkvæmir fyrir hvers konar röskun sem truflar jafnvægi haugsins og getur haft í för með sér ýmiss konar hættur, s.s. gasmengun, mengun grunn- og yfirborðsvatns ásamt sprengihættu.

Þeir valkostir, sem lagðir eru fram, fela allir í sér einhvers konar röskun á haugnum, hvort sem um er að ræða Sundabraut sjálfa eða tengiveg við Hallsveg. Skiptir engu hvort röskunin feli í sér fergingu eða rof á haugnum, hvort tveggja raskar jafnvægi hans,“ segir í umsögninni.

Gæti boðað hættu fyrir íbúa
Í umsögninni, sem fjallað var meðal annars um í Morgunblaðinu í morgun, kemur fram að Umhverfisstofnun sjái ekki hvernig framkvæmdaaðilar hafi hugsað sér að komast hjá því að rjúfa hauginn.

Bendir stofnunin á að ekki sé fyrir hendi fullnægjandi þekking á því hvað var urðað á urðunarstaðnum í Gufunesi, annað en að þangað fór allur úrgangur óflokkaður í áratugi.

„Að mati Umhverfisstofnunar krefst aðgerð eins og bygging Sundabrautar um aflagðan urðunarstað umfangsmikilla rannsókna á áhrifum framkvæmdarinnar á urðunarstaðinn og mikilvægt að þeir aðilar sem komi að slíkum rannsóknum hafi mikla þekkingu og reynslu af slíkum rannsóknum og framkvæmdum.

Þá mun öll vinna á svæðinu vera áhættusöm fyrir umhverfið og ekki síður fyrir heilsu þeirra sem þar vinna, íbúa í nærliggjandi hverfum og framkvæmdaaðila. Úrgangurinn, sem urðaður var á urðunarstaðnum í Gufunesi, fór þangað inn óflokkaður og því ekki hægt að tryggja að það sem grafið yrði upp og þyrfti að fjarlægja væri ekki spilliefni.“

Loks nefnir stofnunin að fari svo að haugnum verði raskað þannig að flytja þyrfti úrgang af staðnum, til dæmis til hreinsunar eða urðunar, þá hafi enginn urðunarstaður í landinu heimild til móttöku á þessum úrgangi.

Þá sé enginn staður er á landinu með leyfi til hreinsunar á menguðum jarðvegi. Og ef eitthvað af þessum úrgangi væri brennanlegur sé til staðar brennslustöð í landinu en erfitt geti reynst að flokka þennan úrgang til brennslu.

Umsagnir um málið má nálgast hér.

Heimild: Dv.is