Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar fellt úr gildi

Framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar fellt úr gildi

80
0
Fyrirhugað útlit Hvammsvirkjunar og tilheyrandi lóns, í áætlunum Landsvirkjunar. RÚV – Landsvirkjun

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur ógilt ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Nefndin hafði áður fellt virkjunarleyfi hennar úr gildi. Formaður Náttúrugriða segir niðurstöðuna hafa verið viðbúna.

<>

Meirihluti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá hinn 14. júní. Daginn eftir felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virkjunarleyfi Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar úr gildi og degi eftir það kærðu þrenn náttúruverndarsamtök ákvörðun sveitarstjórnar til nefndarinnar og kröfðust ógildingar hennar.

Nefndin varð við þeirri kröfu í gær og segir í úrskurði sínum að með ógildingu virkjunarleyfisins séu efnislegar forsendur framkvæmdaleyfisins brostnar og því verði að fella það úr gildi. Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur og formaður Náttúrugriða segir úrskurð gærdagsins ekki breyta miklu í ljósi fyrri úrskurðar, en hann segi sitt um stöðu Hvammsvirkjunar.

„Þarna er búið að gera tvær stofnanir, það er að segja bæði orkustofnun og sveitarstjórn, afturreka með sína úrskurði varðandi Hvammsvirkjun. Og það svona segir sína sögu um stöðuna á henni og þeim framkvæmdaáætlunum.”

Býst við að áfram verði reynt að fá Hvammsvirkjun í gegn
Snæbjörn á von á að Landsvirkjun haldi áfram að reyna að fá Hvammsvirkjun samþykkta. Virkjunarleyfið hafi verið ógilt á þeim forsendum að ekki hafi verið tekið tillit til laga sem kveða á um að ekki megi raska straumvötnum með þeim hætti sem að var stefnt, án sérstakrar undanþágu.

„Og Landsvirkjun er í rauninni búin að sækja um undanþáguna – og það var gert eftir að virkjunarleyfið var veitt – til Umhverfisstofnunar, sem er núna að reyna að finna einhvers kona leið framhjá lögunum, að okkar mati.

Þannig að já, við reiknum með að það verði framhald á ferlinu. En lögin eru auðvitað mjög afgerandi: Það má ekki raska vatnsföllum eins og Þjórsá með svona afgerandi hætti. Og það þarf mjög rík rök og sterkar ástæður til þess að fá að gera það. Og við teljum að þær séu bara alls ekki fyrir hendi.”

Heimild: Ruv.is