Home Fréttir Í fréttum INVIT kaupir Austurverk ehf.

INVIT kaupir Austurverk ehf.

375
0

INVIT hefur fest kaup á 100% hlut í Austurverk ehf.

<>

Markmið fjárfestingarinnar er að styrkja stöðu Austurverk og þar með styðja enn frekar við uppbyggingu innviða um land allt.
INVIT hefur samið um kaup á 100% hlut í Austurverk, kaupin hafa nú þegar tekið gildi.

Austurverk ehf var stofnað árið 2014 af feðgunum Stefáni Halldórssyni, Reyni Hrafn Stefánssyni og Steinþóri Guðna Stefánssyni. Félagið er staðsett á Egilsstöðum og sérhæfir sig í gatnagerð, lagnavinnu í jörðu, snjómokstri, yfirborðsfrágangi og annarri mannvirkjagerð.

Félagið mun áfram starfa undir nafninu Austurverk, en verður stutt af INVIT. Markmið fjárfestingarinnar er að styrkja stöðu Austurverks og þar með styðja enn frekar við uppbyggingu innviða um land allt.

Tilkynnt var um stofnun INVIT fyrr á þessu ári, en félagið hefur það meginhlutverk að sameina reynd íslensk innviðafyrirtæki undir einni regnhlíf.

Með þessu er stefnt að því að festa í sessi þá þekkingu sem skapast hefur í stórframkvæmdum hér á landi og jafnframt að gera innviðafjárfestingar á Íslandi að öryggari valkosti fyrir fjárfesta.

Dótturfélög INVIT eru nú Grafa og Grjót, Steingarður, Austurverk og Undirstaða, en auk þess voru tæki og starfsmenn keyptir frá Snóki verktökum.

Alls starfa um 100 manns hjá samstæðunni, þá hefur flotinn stækkað verulega og telur nú um 100 tæki á borð við gröfur og vörubíla.

Langtímahugsun er lykillinn í starfsemi INVIT og er því verið að undirbúa félagið og dótturfélög þess til þess að takast á við þær langtímaáskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir í innviðauppbyggingu. Með reyndum stjórnendum, öflugum tækjaflota og fjárfestingum í upplýsingatækni má festa dýrmæta þekkingu í sessi og auðvelda yfirfærslu þekkingar milli kynslóða.

Vel hefur tekist til að leggja grunninn að slíkum framförum á undanförnum árum og mun
félagið standa fyrir kynningarviðburði í húsakynnum sínum þann 1 nóvember næstkomandi, þar sem gestum mun gefast færi á að kynnast starfseminni.

Sjálfbærni er jafnframt stórt atriði í greininni, en löggjafinn og samfélagið gera sífellt ríkari kröfur til framkvæmdaraðila. Til þess að koma til móts við þær kröfur þarf að móta sameiginlega stefnu og leita leiða til þess að minnka umhverfisfótspor fyrirtækja í greininni, auka öryggi starfsfólks og tryggja góða stjórnarhætti.

Sameiginlegt móðurfélag getur stutt frekar við dótturfélögin til þess að ná þeim markmiðum.

Heimild: INVIT