Home Fréttir Í fréttum Segir kerfið allt of flókið hér heima – miklu fljótvirkara og skilvirkara...

Segir kerfið allt of flókið hér heima – miklu fljótvirkara og skilvirkara í Noregi og Færeyjum – versnar hér ár frá ári

157
0
Mynd: Dv.is/eyjan

ÞG-verk, sem er eitt stærsta byggingafélag landsins, hefur reynslu af verkefnum í Noregi og Færeyjum. Þorvaldur Gissurarson, forstjóri félagsins, segir mun einfaldara og skilvirkara kerfi vera til staðar ytra og helsta reglan hér á landi virðist vera sú að flækjustigið aukist frá ári til árs.

<>

Þorvaldur er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.

Mér finnst kannski ástæða til að nefna það að til dæmis þegar við vorum í íbúðaverkefni, eða íbúðauppbyggingu, í Osló þá kom það mér á óvart  hvað ferlið varðandi leyfisveitingar, samskipti við byggingaryfirvöld og annað slíkt reyndist vera mun skilvirkara og fljótvirkara í Noregi heldur en hér heima. Það er eitthvað sem kom mér mikið á óvart,“ segir Þorvaldur.

Að hans sögn er staðan hér heima hvað varðar skipulags- og byggingarmál sú að „við höfum flækt kerfið alveg afskaplega mikið og í mörgum tilvikum er það að taka allt of langan tíma að greiða úr málum og koma verkefnum af stað, gera kannski einfaldar skipulagsbreytingar og slíkt, sem reyndist vera margfalt einfaldara í Osló. Í Færeyjum er það enn þá einfaldara heldur en í Noregi. Við mættum læra töluvert mikið af þessu, held ég.“

Aðspurður segir Þorvaldur að við virðumst vera föst í því ferli að í stað þess að einfalda hluti eftir því sem t.d. tækninni fleygir fram. „Ef litið er til sveitarfélaganna til dæmis, skipulags- og byggingarmála innan sveitarfélaganna, finnst mér hreinlega að með hverju árinu séu hlutirnir að verða flóknari og svifaseinni heldur en þeir voru árið á undan.“

Þorvaldur segir vandamálið líkast til vera kerfislegt. „Þetta er þyngst í stærsta sveitarfélaginu en við rekum okkur alveg á vandamál í hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér :

Heimild: Dv.is/eyjan