Isavia hefur sent Skipulagsstofnun athugasemdir vegna álits stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmda við stækkun Keflavíkurflugvallar sem greint var frá hér í blaðinu á mánudaginn.
Þar kom m.a. fram að stofnunin telur ámælisvert af hálfu Isavia að hafa ráðist í uppbyggingu austurálmu áður en lokið var við umhverfismat vegna stækkunar flugvallarins. Isavia bendir m.a. á í svarinu að um þann þátt framkvæmdanna hafi verið fjallað í matsáætlun árið 2019.
„Samstarfið við Skipulagsstofnun vegna þessa hefur verið afar gott. Við höfum frá 2017 átt samskipti við stofnunina um hvernig skuli staðið að matinu og unnið samkvæmt aðferðafræði sem Skipulagsstofnun féllst á í bréfi til okkar í desember 2017.
Þess vegna kemur þetta atriði sem um ræðir í niðurstöðu Skipulagsstofnunar okkur á óvart og höfum við gert athugasemd við það í erindi sem sent var til stofnunarinnar,“ segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia. Framkvæmdirnar haldi áfram og Isavia muni kappkosta að lágmarka umhverfisáhrif.
„Það er mikilvægt að nú liggur fyrir heildstætt umhverfismat fyrir framkvæmdir næstu ára. Við tókum þá ákvörðun að fara í heildstætt umhverfismat með þessu hætti og ganga þannig lengra en lög um umhverfismat gera ráð fyrir. Álitið sem nú er komið út styður við og er í samræmi við niðurstöður umhverfismatsskýrslu okkar, en á nokkrum stöðum er vægismat stofnunarinnar á umhverfisáhrifum annað – sem er ekki óeðlilegt. Isavia mun að sjálfsögðu kappkosta að vinna í samræmi við niðurstöðurnar til að lágmarka umhverfisáhrif, eins og við höfum gert og gerum áfram.“
Heimild: Mbl.is