Tilboð í næsta áfanga Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, vegfyllingu yfir Gufufjörð og Djúpafjörð, voru opnuð hjá Vegagerðinni í gær og reyndist lægsta boð aðeins 74 prósent af kostnaðaráætlun. Brúin yfir Þorskafjörð verður tekin í notkun síðar í þessum mánuði, átta mánuðum á undan áætlun.
Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um þá samgöngubyltingu sem framundan er á Vestfjörðum. Til stóð að opna brúna yfir Þorskafjörð um mitt næsta sumar en núna er orðið ljóst að verktakinn Suðurverk klárar verkið átta mánuðum fyrr. Vegagerðin áformar brúarvígslu þann 25. október, eftir þrettán daga.
Þá er vegarlagning um Teigsskóg einnig á lokametrunum og vonast verktakinn Borgarverk til að opna veginn í næsta mánuði.
Endurbætur Vestfjarðavegar um Gufudalssveit hófust fyrir þremur árum en fyrsti áfanginn var kafli milli Skálaness og Gufudals. Næsti áfangi var kafli inn Djúpafjörð. Báðir þessir vegir verða sveitavegir í framtíðinni en þjóna tímabundið sem hluti Vestfjarðavegar.
Þriðji áfanginn og sá stærsti til þessa er þverun Þorskafjarðar, sem hófst vorið 2021. Brúin styttir leiðina fyrir fjörðinn um tæpa tíu kílómetra.
Vorið 2022 var svo byrjað að leggja veginn um Teigsskóg. Þegar hann verður opnaður, væntanlega í næsta mánuði, losna vegfarendur við að aka um Hjallaháls, 336 metra háan fjallveg.
Vestfjarðavegur mun þá liggja út Þorskafjörð, inn Djúpafjörð og svo áfram gamla veginn yfir Ódrjúgsháls. En bara tímabundið því framundan er að þvera firðina tvo, Gufufjörð og Djúpafjörð, en tilboð í það verk voru opnuð hjá Vegagerðinni í gær.
Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 1.134 milljónir króna. Lægsta boðið kom frá Borgarverki upp á 838 milljónir, eða 74 prósent af áætluðum kostnaði og nærri 300 milljónum undir, en þess má geta að Borgarverk er þegar með tæki og mannskap á staðnum sem verktaki vegarins um Teigsskóg. Eitt annað boð reyndist undir kostnaðaráætlun en öll hin yfir en alls bárust fimm tilboð.
Í verkinu felst gerð 3,6 kílómetra langrar vegfyllingar og 119 metra langrar bráðabirgðabrúar. Smíði þriggja varanlegra brúa yfir firðina verður boðin út sér.
Endurbæturnar í Gufudalssveit eru liður í þremur stórverkefnum í fjórðungnum sem samtals stytta Vestfjarðaveg um fimmtíu kílómetra. Hin eru Dýrafjarðargöng, sem opnuð voru fyrir þremur árum, og Dynjandisheiði, en kaflinn milli Flókalundar og Dynjanda gæti klárast eftir þrjú ár, um líkt leyti og Gufudalssveit.
Aðalleiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur er núna Djúpvegur, 455 kílómetra löng. Þegar allar þessar vegarbætur verða komnar í gagnið verður vesturleiðin milli höfuðstaðar Vestfjarða og höfuðborgarinnar búin að styttast niður í 394 kílómetra. Hún verður 61 kílómetra styttri. Það blasir við að hún muni í framtíðinni verða aðaltenging Vestfjarða við aðra landshluta.
Heimild: Visir.is