Home Fréttir Í fréttum Flýta skal hönnun á nýrri björgunarmiðstöð á Djúpavogi

Flýta skal hönnun á nýrri björgunarmiðstöð á Djúpavogi

60
0
Mynd: Austurfrett.is

Heimastjórn Djúpavogs hefur farið þess á leit við sveitarstjórn Múlaþings að þegar verði hafist handa við hönnun og undirbúning á nýrri björgunarmiðstöð í bænum enda sé þörfin brýn.

<>

Nýrri björgunarmiðstöð er ætlað að hýsa slökkvilið bæjarins auk Rauða kross deildarinnar á Djúpavogi og björgunarsveitarinnar Báru. Lengi vel stóð til að sameina þessa aðila undir sama þaki í svokölluðu Vogshúsi en vinnuhópur sem fór yfir þau mál komst að þeirri niðurstöðu að ódýrara yrði að byggja nýtt en að kosta mikla endurnýjun á því húsnæði sem komið er til ára sinna.

Ný björgunarmiðstöð er á fjárhagsáætlun Múlaþings til næstu ára en þar gert ráð fyrir að heildarkostnað geti numið um 270 milljónum króna alls. Þegar er búið að eyrnamerkja tíu milljónum í undirbúningsvinnu á næsta ári en svo þriggja ára bið í næsta framlag sem nemur um 70 milljónum króna 2027 og ljúka skal verkinu ári síðar með 190 milljóna króna framlagi.

Að sögn Gauta Jóhannessonar, staðgengils sveitarstjóra á Djúpavogi, er með bókun heimastjórnarinnar verið að ýta við og skerpa á málinu.

„Viðbragðsaðilar eru allir farnir að starfa það mikið saman að það er augljós samlegð af því að koma upp slíkri miðstöð. Húsnæði björgunarsveitarinnar og slökkviliðsins þarfnast bæði töluverðra endurbóta þannig að það er eðlilegt að horfa til samnýtingar nýs húsnæðis til framtíðar.“

Gauti segir að óformlega séð sé búið að eyrnamerkja tiltekna athafnalóð við Gleðivík undir nýja miðstöð og því sé búið að taka fyrstu skrefin í ferlinu.

Heimild: Austurfrett.is