Límtré Vírnet ehf hefur nú vottað stjórnkerfi í samræmi við ISO 9001:2015, jafnlaunavottum samkvæmt ÍST 85 og er með CE vottanir á framleiðslu á límtré og yleiningum.
„Árið 2021 valdi Límtré Vírnet Versa Vottun til að fylgja sér í gegnum vottun samkvæmt ISO 9001:2015 og jafnlaunavottun samkvæmt ÍST 85 og hefur það samstarf gengið að okkar mati einstaklega vel,“ segir Einar Bjarnason, kerfis- og gæðastjóri Límtré Vírnets.
„Ferlið var oft erfitt og krefjandi en alltaf skemmtilegt og hefur aðkoma Versa Vottunar tryggt öflugt og ekki síður vandað stjórnkerfi sem uppfyllir allar kröfur staðalsins,“ segir Einar.
Í fyrra fékk Límtré Vírnet vottun samkvæmt ISO 9001 og ÍST 85. Á sama tíma var Versa Vottun að vinna í að fá alþjóðlega faggildingu á sinni vinnu frá Swedag Ackreditering og gekk það allt eftir og því getur Límtré Vírnet núna státað sig af alþjóðlega faggiltri vottun samkvæmt ISO 9001:2015.
„Þessi vottun tryggir öflugt og faglegt stjórnkerfi yfir allt fyrirtækið og tryggir viðskiptavinum okkar betri vörur og þjónustu. Þetta verður einnig til þess að auka starfsánægju og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins,“ segir Einar.
Nú er í vinnslu vinna við stjórnkerfi samkvæmt ISO 14001 Umhverfisstjórnun og ISO 45001 Heilbrigði og öryggi á vinnustað og stefnir Límtré Vírnet á vottanir þar sömuleiðis, innan tveggja ára.
Heimild: Sunnlenska.is