Home Fréttir Í fréttum Áfangar að nást í krefjandi vegagerð á Dynjandisheiði

Áfangar að nást í krefjandi vegagerð á Dynjandisheiði

91
0
Jóhann Birkir Helgason, eftirlitsmaður Verkís fyrir Vegagerðina á Dynjandisheiði. Fyrir aftan sér niður í Geirþjófsfjörð. EGILL AÐALSTEINSSON

Vegagerð um hæsta hluta Dynjandisheiðar er einhver sú erfiðasta hérlendis um þessar mundir. Verkinu miðar þó vel og er hugsanlegt að umferð verði hleypt á hluta nýja vegarins fyrir veturinn.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá þegar ekið var upp á heiðina framhjá Hótel Flókalundi. Þar birtist vegfarendum núna ánægjuleg viðbót því búið er að leggja slitlag upp með ánni Pennu á endurbættan kafla, en í sama vegstæði, sem gæti frestað deilum um nýja veglínu um friðland Vatnsfjarðar.

Rúmt ár er frá því malbikið kom ofar, á nýja kaflann upp Pennusneiðing, og núna gæti farið að styttast í næstu áfanga efst á heiðinni. Rétt um ár er liðið frá því starfsmenn Suðurverks hófust handa við næsta verkhluta sem hiklaust má telja einhverja erfiðustu vegagerð á Íslandi.

Hér er hæsti hluti Dynjandisheiðar í 500 metra hæð yfir sjávarmálið. Nýi vegurinn til vinstri. Fjær sést niður í Arnarfjörð.
EGILL AÐALSTEINSSON

Eftirlitsmaður verksins fyrir Vegagerðina, Jóhann Birkir Helgason hjá Verkís, segir frostið helstu áskorunina. Svona hátt uppi, í fjögur- til fimmhundruð metra hæð yfir sjávarmáli, frysti yfirleitt snemma á haustin.

„Þetta hefur gengið mjög vel núna undanfarið. Það var erfitt í vetur og sérstaklega í vor þegar var frost bara langt fram eftir maí og frost í jarðvegi alveg fram í júní. Þá var þetta svolítið erfitt,“ segir Jóhann Birkir.

Að ekki sé ekki minnst á stórviðrin sem 22 manna vinnuflokkur Suðurverks undir stjórn Screckos Knezevic hefur sannarlega þurft að glíma við.

Screcko Knezevic, verkstjóri hjá Suðurverki.
EGILL AÐALSTEINSSON

„Þetta er mjög erfitt vinnusvæði. Þetta er svo langur vetur og harður vetur. Það er erfitt fyrir alla, mannskap og Vegagerðina. Að halda opnum veginum og koma mannskap upp og vinna.

En þetta samt gengur og við reynum að halda okkur áfram hérna,“ segir Screcko, sem segist vera frá fyrrum Júgóslavíu og hafa starfað hjá Suðurverki í fimmtán ár.

Miklar sprengingar og jarðvegsflutningar eru að baki við mótun nýs vegstæðis á þriggja kílómetra kafla í skeringu um Vatnahvilft undir Botnshesti.

Sprengt fyrir nýju vegstæði undir Botnshesti ofan Geirþjófsfjarðar.
EGILL AÐALSTEINSSON

„Svo erum við að koma hérna niður Botnshestinn, sem er líka mjög erfiður og miklar sprengingar, og vonandi að næstu þá kannski sex kílómetrarnir verði þá einfaldari,“ segir eftirlitsmaðurinn Jóhann.

Vegarkaflinn sem Suðurverk vinnur er alls 12,6 kílómetra langur en áfangaskiptur. Vegagerðin er á köflum komin það langt að það virðist stutt í að einhverjir þeirra klárist.

„Já, fyrsti kaflinn er tilbúinn undir burðarlag og styrktarlag. Það er bara verið að vinna það í námu núna,“ segir Jóhann og vonast til að unnt verði að keyra það út í þessari viku. En verður hægt að opna hluta vegarins jafnvel fyrir þennan vetur?

Í Hærri-Vatnahvilft undir Botnshesti. Neðarlega til hægri er verið að sprengja fyrir nýju vegstæði ofan Geirþjófsfjarðar.
EGILL AÐALSTEINSSON

„Það væri óskandi. En það er bara komið núna fram í september og ekki víst að það verði hægt að klæða,“ svarar Jóhann.

Það er þó enn smávon um að það takist að opna fjögurra kílómetra kafla um hæsta hluta heiðarinnar og niður í Vatnahvilft.

„Það er alveg hugsanlegt að það væri hægt. Ef að septembermánuður verður okkur hagstæður, – og fram í október,“ segir Jóhann Birkir Helgason, eftirlitsmaður Verkís fyrir Vegagerðina.

Heimild: Visir.is