Í sumar hefur verið unnið að lagfæringum á gólfi aðalsalar Laugardalshallar. Nýtt parket var lagt í fyrra í kjölfar heitavatnsleka sem varð í nóvember 2020.
Gólfið var lakkað en í ljós kom að galli var í lakkinu og það byrjaði að flagna af. Því þurfti að slípa gólfið og lakka það að nýju. Á milli umferða þarf að gefa lakkinu tíma til að þorna. Að því búnu eru línur lagðar á gólfið.
Það er flókin og tímafrek nákvæmnisvinna enda keppt í mörgum íþróttagreinum í húsinu, fyrst og fremst í handbolta, körfubolta og blaki. Starfsmenn hjá Sport-Tækjum ehf. annast verkið.
Þar sem leggja þurfti nýtt parket var tækifærið notað til að endurnýja búnað hússins. Sett var upp ný lýsing og hljóðkerfi sem uppfyllir nútímakröfur við íþróttakeppni og notkun hússins sem fjölnotahúss. Húsið var tilbúið til notkunar í fyrrahaust og varð að nýju vettvangur landsleikja í innanhússíþróttum.
Að sögn Birgis Bárðarsonar framkvæmdastjóra Laugardalshallarinnar er stefnt að því að húsið komist í gagnið fyrir mánaðamót. Mikið er um að vera í húsinu í ágústmánuði. Má þar þar nefna að skráningahátíð fyrir Reykjavíkurmaraþon var í frjálsíþróttasalnum og 31. ágúst hefst iðnaðarsýning, sem einnig verður í frjálsíþróttasalnum.
Enda þótt hlé hafi orðið á kappleikjahaldi vegna heitavatnsleikans gegndi Laugardalshöll mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn Covid-19. Mánuðum saman fóru fram fjöldabólusetningar í Höllinni.
Heimil: Mbl.is