Home Fréttir Í fréttum Fráveitukerfið ekki í stakk búið til að taka á móti úrgangi úr...

Fráveitukerfið ekki í stakk búið til að taka á móti úrgangi úr sorpkvörnum

133
0
Sorpkvarnir tæta í sig matarafganga. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Forstöðumaður vatns og fráveitu hjá Veitum segir veitukerfið ekki í stakk búið til þess að taka á móti lífrænum úrgangi úr sorpkvörnum en áhugi á þeim hefur aukist eftir að nýtt flokkunarkerfi var tekið í gagnið á höfuðborgarsvæðinu.

<>

Framkvæmdastjóri fyrirtækis sem selur sorpkvarnir segir eftirspurn og áhuga á kvörnunum hafa aukist merkjanlega eftir að nýtt flokkunarkerfi var tekið í gagnið á höfuðborgarsvæðinu. Forstöðumaður vatns og fráveitu hjá Veitum segir veitukerfið ekki í stakk búið til þess að taka á móti lífrænum úrgangi.

Sorpkvörn er rafmagnstæki sem er fest undir vask á milli niðurfalls og vatnsláss. Hún tætir í sig matarafganga og smáleifar sem setjast í niðurfallið og smættar þá í agnir. Þeim ögnum er svo skolað í fráveitukerfið.

Kerfin ekki hönnuð fyrir kvarnirnar
Jón Trausti Kárason, forstöðumaður vatns og fráveitu hjá Veitum, varar við því að kvarnirnar geti valdið stíflu.

„Fráveitukerfin okkar eru ekki hönnuð miðað við svona búnað og það sem kannski mestu máli skiptir er að fólk sem kemur upp svona búnaði heima hjá sér á það hættu að valda skaða á eigin lögnum. Það er að segja, að þarna verði einhverjar stíflur sem geta valdið tjóni.“

Áhugi jókst með nýju flokkunarkerfi
Steingrímur Örn Ingólfsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Kvarna, segir áhuga og eftirspurn eftir sorpkvörnum hafa aukist með nýju sorpflokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu, þar sem lífrænn úrgangur er flokkaður sér.

Jón Trausti segir það boða aukið og dýrara viðhald á fráveitukerfum ef sorpkvörnum fjölgar.

„En við þekkjum dæmi um það þar sem fólk hefur lent í vandræðum heima hjá sér vegna þess að það er með svona búnað og það eru að myndast stíflur í þeirra eigin lögnum frá húsunum. Þannig að já, við þekkjum vandamálin og allt kemur þetta af þeirri staðreynd að kerfin okkar eru ekki hönnuð fyrir þessa notkun.“

Heimild: Ruv.is