Í kjölfar frestunar á verklegum framkvæmdum við Stjórnarráðshúsið var ákveðið að slétta og tyrfa svæðið til bráðabirgða, en stór grunnur var á lóðinni vegna viðbyggingar sem átti að reisa.
Fornleifauppgreftri á svæðinu er lokið og stóð til að við tækju framkvæmdir við viðbygginguna, en þeim var slegið á frest í vor vegna aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum. Að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hefur verkefnið verið lengi á teikniborðinu og voru upphaflega boðuð verklok í ár.
Undanfarna áratugi hefur Stjórnarráð Íslands verið til húsa í nokkrum byggingum, meðal annars í leiguhúsnæði í eigu nokkurra aðila og hefur því lengi verið stefnt að því að reisa viðbyggingu við gamla Stjórnarráðshúsið og koma allri starfsemi forsætisráðuneytisins fyrir á einum stað. Ekki er ljóst hvenær framkvæmdir hefjast að nýju.
Heimild: Mbl.is