
Átta mánaða tafir á framkvæmdum við Hlemm skýrast af því að verkið hófst ekki nógu snemma til þess að tímalína stæðist og þá var ekkert gert í fjóra mánuði í vetur vegna frosts í jörðu. Rauðarárstígur frá Bríetartúni að Hlemmi verður opnaður í lok ágúst. Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Vísis.
Framkvæmdir á Laugavegi við Hlemm hófust í september í fyrra og var gert ráð fyrir að þeim myndi ljúka síðustu áramót. Kaflinn sem um ræðir liggur frá Mathöllinni á Hlemmi og að Snorrabraut og er um að ræða viðamiklar breytingar á svæðinu.
Í svörum frá Reykjavíkurborg vegna framkvæmdanna segir að lagningu fráveitu hafi að mestu lokið síðastliðin áramót. Segir í svörunum að ekki sé ráðlegt að eiga mikið við lagnir yfir harðasta vetrartímann.
„Nefna má tvennt í þessu sambandi: 1. Verkið hófst ekki nægilega snemma til að áætluð tímalína stæðist að fullu. Það hófst í september en þá var allt til reiðu og búið að leysa og finna lausnir fyrir gangandi, rekstraraðila og strætó sem stóðust allar öryggiskröfur. 2. Veturinn var harður og jörð fraus í fjóra mánuði á svæðinu, ekki var hægt að hefja aftur vinnu fyrr en mánaðamótin mars-apríl.“

VÍSIR/VILHELM
Alltaf breytingar á áætlunum í svo viðamiklu verki
Í svörunum segir ennfremur að verkið í heild hafi gengið vel. Verkinu á Laugavegi hafi verið skipt upp, þannig að gatan er kláruð fyrst, næst tekin gangstétt öðru megin og síðan hinumegin.
Rauðarárstígur frá Bríetartúni að Hlemmi verður opnaður í lok ágúst, að því er segir í svörunum. Snyrting, eins og því er lýst, verður á öllum þáttum í september. Þá er hönnun á næstu áföngum fyrir Hlemm sögð í góðum gír.
„Í svona viðamiklu verki verða alltaf einhverjar breytingar á áætlun. Í þessu tilfell þurfti að breyta lýsingu, ekki var hægt að hafa hana hangandi, þannig að búið er að smíða ljósastaura. Áætluð tímalína á framkvæmdum breyttist en verktakinn hefur staðið sig vel og framkvæmdaaðilar leyst öll verkefni sem hafa komið upp.“

VÍSIR/VILHELM
Heimild: Visir.is