Áform um nýtt íbúðahverfi við Suðurfell í Efra-Breiðholti fá dræmar undirtektir hjá íbúum hverfisins. Í nýju deiliskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir lágreistri íbúðabyggð, á einni eða tveimur hæðum, með 50-75 íbúðum.
Greint var frá þessum áformum í frétt hér í blaðinu í síðustu viku.
Skipulagslýsing var nýlega auglýst í Skipulagsgáttinni og óskað eftir ábendingum og umsögnum.
Í gær höfðu borist átta umsagnir, þar af sjö frá einstaklingum. Eru þeir allir sem einn andvígir íbúðabyggð á svæðinu.
Í einni umsögninni segir:
„Þetta græna svæði þekki ég vel og hef notað mikið frá 2009. Þarna er fólk á göngu, hlaupum og á hjólum, börn að leik og síðast en ekki síst fjölbreytt fuglalíf. Þessi áætlun sverfur enn frekar að villtum grænum svæðum innan borgarinnar og ef það er velferð og hamingja fólks sem við viljum huga að þá eru grænu svæðin með fuglasöng hvað mikilvægust. Ég hef reyndar líka áhyggjur af því að um leið og farið er að seilast inn á þetta ósnortna svæði þá lækki þröskuldurinn fyrir enn frekari röskun á svæðinu umhverfis Elliðaár.“
Aðrar umsagnir frá einstaklingum eru í svipuðum dúr.
„Þessi hugmynd er algerlega út í hött! Þarna er freklega verið að ganga á og að grænum svæðum innan borgarmarkanna. Fjöldi fólks nýtir sér þennan hluta ósnortinnar náttúru innan borgarmarkanna meðal annars með göngu- og reiðhjólatúrum hvern einasta dag!“ segir í annarri umsögn. Frestur til að veita umsögn er til 18. ágúst.
Aðeins Minjastofnun Íslands gerir ekki athugasemdir við lýsingu nýs deiliskipulags.
Heimild: Mbl.is