Home Fréttir Í fréttum Grímseyingar upplifa sig svikna vegna kirkjuframkvæmda

Grímseyingar upplifa sig svikna vegna kirkjuframkvæmda

55
0
Ný Miðgarðakirkja stendur vígaleg á eynni, þó ókláruð sé. RÚV – Sölvi Andrason

Grímseyingar eru gáttaðir á því hve mikið kostnaður við kirkjuframkvæmdir hefur farið fram úr áætlun. Fagfólk var fengið í verkið – sem allt vísar frá sér ábyrgð.

<>

Grímseyingar upplifa sig svikna vegna kirkjuframkvæmda í eynni. Kostnaður við byggingu kirkjunnar hefur þegar farið tuttugu milljónum fram yfir kostnaðaráætlun, en kirkjan enn ekki orðin fokheld.

Tæp tvö ár eru liðin frá því að Miðgarðakirkja brann til grunna. Heimamenn tóku strax ákvörðun um að endurreisa kirkjuna og að verkið yrði fært í hendur fagmanna, enda reynsla heimamanna af kirkjusmíðum engin. Verkefnisstjóri, arkitekt og smiðir voru fengnir í verkið og var áætlaður kostnaður framkvæmda 103 milljónir króna. Framkvæmdin hefur farið nokkuð fram úr áætlun en þegar hefur rúmum 120 milljónum verið eytt og enn er langt í land.

Í kostnaðaráætlun er gert ráð fyrir framkvæmdum upp á rúmar 103 milljónir króna. Samkvæmd heimildum fréttastofu var það arkitektinn sem fékk verkfræðinga til að útbúa áætlunina.
Aðsend

Finnst ógætilega farið með fjármagn
„Við treystum fólki fyrir þessu í rauninni og settum þetta af okkar herðum yfir á aðra að græja þetta og maður eiginlega skilur ekki hvernig svona hlutir geta farið út í þessa vitleysu,“ segir Svafar Gylfason, íbúi og sóknarnefndarmeðlimur í Grímsey.

Svafar segir að Grímseyingum finnist að ógætilega hafi verið farið með fjármagn, sem bæði fékkst með ríkisstyrkjum og styrkjum frá almenningi víðs vegar að úr heiminum. Þá hafi dýr efniviður verið valinn, gegn vilja heimamanna – og vinna tekið mun lengri tíma en áætlað var.

Í upphafi var Grímseyingum sagt að kirkjan yrði fokheld ári eftir brunann, eða 22. september 2022. Því markmiði hefur enn ekki verið náð.

Vilja að einhver taki ábyrgð á verkinu
„Auðvitað erum við öll sammála um það að manni finnst að einhver eigi að bera ábyrgð í þessu dæmi en það er ekkert þannig. Fólk sagði frekar við okkur að halda bara áfram og að við mættum ekki tala þetta verkefni niður.“

Nú hefur smiðunum verið sagt upp og fyrrum verkefnastjóri sagt sig frá verkefninu. Enn er þó sami arkitekt að störfum. Fréttastofa hafði samband við smiðina, arkitektinn og verkefnisstjórinn fyrrverandi, en hver vísaði ábyrgðinni á einhvern hinna.

Svafar segir Grímseyinga ekki síður ósátta að sjá þá vankanta sem eru á framkvæmdinni. Misfellur séu í þakinu, auk þess sem hurðir og gluggar henti illa grímseyskum aðstæðum.

Áfram heldur söfnun og verkið skal klárað
„Auðvitað eru allir rosalega eyðilagðir yfir þessu en við erum held ég upp til hópa bjartsýnt fólk. Okkur langar bara að halda áfram og klára þetta en það verður ekki gert á þessu eða næsta ári. Við verðum bara að safna pening og reyna að fá einhvers staðar hjálp.“

Svafar segist vona að hægt verði að klára skrúðshúsið og gera kirkjuna fokhelda fyrir veturinn.

Heimild: Ruv.is