Home Fréttir Í fréttum Viðhaldsskortur hefur kostað borgina hundruð milljóna aukalega

Viðhaldsskortur hefur kostað borgina hundruð milljóna aukalega

95
0
Framkvæmdir standa nú yfir í Vörðuskóla á Skólavörðuholti. Skólinn verður mögulega tilbúinn í lok árs 2024. Tækniskólinn hafði notað húsin í nokkurn tíma áður en farið var í framkvæmdir en ekki er ljóst hvaða skólastarf fer í húsið. RÚV – Arnór

Uppsöfnuð viðhaldsþörf er ástæða þess að margir skólar í Reykjavík eru í slæmu ásigkomulagi. Skortur á viðhaldi hefur kostað borgina hundruð milljóna aukalega. Kostnaður við færanleg kennslurými og leigu á öðru húsnæði er á við nýbyggingu.

<>

Skólarbyggingar í Reykjavík eru í slæmu ásigkomulagi vegna viðhaldsskorts á árunum 2009-2018. Áætlað er að allt að 35 milljarðar fari í viðhald og endurbætur á skólum í borginni á næstu árum.

Í sumar er verið að vinna í um 70 leik- og grunnskólum, og frístundarheimilum, í Reykjavík. Það er helmingur alls skólahúsnæðis í borginni. Framkvæmdirnar eru bæði hefðbundið viðhald og framkvæmdir eftir ábendingar starfsfólks og nemenda. Ástand skólanna er misslæmt en skólar í Vesturbænum, Laugardal og Breiðholti eru í forgangi.

Fram hefur komið í fréttum að skólastjóri Laugarnesskóla hafi þurft að hætta störfum vegna veikinda, sem hún rekur til myglu í skólanum. Skólinn er mjög illa farinn og hefur verið það í þónokkur ár.

Rúnar Ingi Guðjónsson, deildarstjóri hjá viðhaldsdeild borgarinnar, segir framkvæmdir þar flóknar, þar sem ytra byrði hússins er friðað. Verið er að gera tilraunir í Vörðuskóla á Skólavörðuholti á sambærulegum útvegg og í Laugarnesskóla. Vandamál lekans stafar ekki einungis útaf gluggum heldur lekur útveggurinn sjálfur.

„Það fór ákveðin tregða í gang því við megum ekki gera þetta hvernig sem er. Við verðum að gera þetta í miklu samstarfi við Minjastofnun meðal annars. Það er líka flækjustig í skólastarfinu því það fer illa saman, framkvæmdir og skólastarf. Ég þarf að fá húsið afhent en á sama tíma þarf að finna bráðabirgðahúsnæði fyrir skólann á meðan. Kannski í eitt til tvö ár.“

Rúnar Ingi Guðjónsson, deildarstjóri hjá viðhaldsdeild Reykjavíkurborgar.
RÚV – Arnór Fannar Rúnarsson

Bráðabirgðahúsnæði er dýrt. „Kostnaðurinn a fermetratöluna er að nálgast það eins og við hefðum farið í nýbyggingu. Þar erum við ekki vel sett,“ bætir Rúnar við.

Uppsafnað viðhald

Meginástæða þess að ástandið er slæmt í svo mörgum skólum er að viðhaldi var ekki sinnt. Fjármagn skorti í langan tíma eftir hrun. Áætlað er að allt að 35 milljarðar fari í viðhald og endurbætur á skólum í borginni á næstu fimm til sjö árum. Að sögn Rúnars er það töluvert meira fjármagn en er venjulega sett í slíkar framkvæmdir.

„Það er meira að segja það að vinna úr þessum kúf því þetta magnast ofan á okkur. Viðhaldsskuldin, hún er með sína dráttarvexti og lögfræðiinnheimtu. Í staðinn fyrir að þetta hafi kostað 100 milljónir þá kostar þetta 300 milljónir.“

Í vandræðum með skilgreiningu á myglu

Myglu er að finna í öllum húsum en mikill mygluvöxtur hefur áhrif á heilsu fólks. Engin opinber heilsuskilgreining er til né reglur til að fara eftir. Rúnar segir að borgin fari eftir því hvernig notendur upplifi húsin. „Ef fólk finnur fyrir óþægindum eigum við að bregðast við. Það er talað um að 10-15 prósent finni fyrir einkennum ef það er mygluvöxtur í húsinu. Þrjú til fjögur prósent fá alvarleg einkenni. Stundum er enginn sem finnur neitt en samt sem áður er eitthvað að grassera, þannig þetta er snúið.“

Þörf á skilvirkari viðhaldsstefnu

Innri endurskoðun gerði úttekt á viðhaldsstjórnun fasteigna borgarinnar sem var birt 5. júní. Niðurstaðan var að ýmsu er ábótavant í viðhaldi borgarinnar. Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar, segir að það sé eðlilegt. Nauðsynlegt sé að skoða slík mál og endurmeta reglulega. Úttektin var kynnt á fundi borgarráðs 15. júní og að sögn Halls voru viðbrögðin góð. Farið verði í endurbætur á ferlinu sem fyrst.

Meginniðurstaða úttektarinnar var eftirfarandi.

Endurskoða þurfi stjórnskipulag Reykjavíkurborgar þannig að það stuðli að skilvirkri eigna- og viðhaldsstjórnun fasteigna. Þá þurfi að móta viðhaldsstefnu og markmið sem styðja við heildarstefnu borgarinnar. Bæta þurfi viðhaldsáætlunarferlið, m.a. með því að innleiða aðferðafræði áhættustýringar við forgangsröðun verkefna, og horfa ætti til lengri tíma við gerð viðhalds- og kostnaðaráætlana en eins árs í senn. 

Einnig þarf að bæta vöktun á ástandi eigna og kerfisbundið mat á stöðu þeirra þannig að hægt sé að gera lengri tíma áætlanir um viðhaldsþörf. Jafnframt þarf að gera áætlun um hvernig unnið verður úr uppsafnaðri viðhaldsþörf eigna vegna ónógrar fjármögnunar viðhalds á árunum 2009-2018. Að lokum þarf að bæta verkefnisstjórnunarferla og vinnulag við stærri viðhalds- og endurnýjunarverkefni og miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila.

Heimild: Ruv.is