Mikill áhugi er á hlutdeildarlánum eftir reglugerðarbreytingu ráðherra. Fasteignasali segist í raun ekki sjá neina ókosti við úrræðið.
Skilyrði fyrir hlutdeildarlánum voru rýmkuð verulega í síðasta mánuði þar sem tekjumörk og hámarksverð íbúða voru hækkuð. Í kjölfarið hafa umsóknir flætt inn til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og finnur stofnunin fyrir auknum áhuga byggingaraðila að fá íbúðir samþykktar í úrræðið.
Fleiri finna fyrir auknum áhuga en Aron Freyr Eiríksson, fasteignasali og annar eigandi Ás fasteignasölu, segir eftirspurnina mikla.
„Við settum á sölu Nónhamar 2, 4 og 6 í Hafnarfirði frá Byggingarfélagi Gunnars og Gylfa á þriðjudag og það voru 20 íbúðir seldar degi síðar, allar nema ein í gegnum hlutdeildarlán. Verktakarnir sjá það vel að það er aukin eftirspurn í þær íbúðir sem falla undir þetta og þetta er svo sem bara eitt dæmi af mörgum.“
Aðspurður um hvort verðið gæti verið takmarkandi þáttur, þar sem HMS þarf að samþykkja það, segir Aron að með reglugerðarbreytingunni sé verðið í kringum það sem er almennt á markaðinum. Þá séu dæmi um að verktakar hafi lækkað verð á íbúðum sem áður voru til sölu til að komast inn í úrræðið.
Hámarksverð íbúða fyrir hlutdeildarlán
„Ég er frekar að sjá það að menn séu að fara þá leiðina, að lækka verðin niður í það sem gengur upp frekar en að menn séu að tosa verðin upp með einhverjum hætti.“
„Þetta er bara viðbót við aðra möguleika sem voru fyrir. Maður sér í rauninni engan ókost í þessu, hvorki gagnvart þeim sem eru að selja eða kaupa.“
Heimild: Vb.is