Home Fréttir Í fréttum Lengstu hjólagöng í Evrópu í Bergen

Lengstu hjólagöng í Evrópu í Bergen

60
0
NRK – Skjáskot úr myndbandi

Borgaryfirvöld í Bergen vona að bílaumferð minnki með tilkomu lengstu ganga í Evrópu fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Hitinn er alltaf sjö gráður og búist er við að hlauparar taki því fagnandi að spretta þar úr spori yfir vetrartímann.

<>

Lengstu göng í Evrópu, ætluð hjólandi og gangandi vegfarendum, voru opnuð í Bergen í Noregi í vor. Göngin kallast Fyllingsdalstunnelen og eru 2,9 kílómetrar að lengd. Þau liggja í gegnum fjallið Løvstakken á milli miðborgarinnar og úthverfisins Fyllingsdalen.

Göngin liggja samsíða göngum fyrir sporvagna og voru upphaflega hugsuð sem flóttaleið úr sporvagnagöngunum. Sú hugmynd kviknaði að gera meira úr flóttagöngunum og úr varð þetta mannvirki.

Borgaryfirvöld vonast til þess að með byggingunni kjósi fólk að hjóla, ganga eða hlaupa frekar en að fara ferða sinna á bíl. Þannig minnki bílaumferð og mengun.

Listaverk prýða veggi ganganna og í miðjunni er litríkur skúlptúr sem gera á ferðir ánægjulegri. Þá hafa verið gerðir hjólastígar við endana báðu megin og samtals eru þetta tæpir átta kílómetrar.

Öryggismyndavélar eru í göngunum og neyðarsímar með 250 metra millibili. Hitanum er haldið í sjö gráðum, sem vonast er til að geri mannvirkið að fýsilegum kosti fyrir hlaupara í vetrarhörkum.

Heimild: Ruv.is