
Framkvæmdir á vegum breska auðmannsins Jim Ratcliffe eru í fullum gangi á Austurlandi. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu kynnti Ratcliffe árið 2021 áform um að leggja minnst fjóra milljarða í byggingu nýrra veiðihúsa.
Stækkun veiðihússins við Selá, sem fól í sér byggingu stórrar svítu, lauk í fyrravor og miklar framkvæmdir hafa verið við nýtt og veglegt hús í Vesturárdal. Þar er í raun um að ræða sex hús saman í þyrpingu auk bílskúrs og hlöðu. Þau verða alls um 1.400 fermetrar.
Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Project, segir í samtali við Morgunblaðið að framkvæmdin í Vesturárdal sé vel á veg komin og vonast er til að hún klárist í ár.
Nýjasta viðbótin er veiðihús við Miðfjarðará í Bakkafirði sem vígt var með pompi og pragt fyrir tveimur vikum að sögn Gísla. Byggingin skiptist í tvær einingar sem tengdar eru saman með glergangi, samtals um 666 fermetrar að stærð.
Heimild: Mbl.is