Home Fréttir Í fréttum Vel gengur með hinn nýja Þverárfjallsveg í Refasveit

Vel gengur með hinn nýja Þverárfjallsveg í Refasveit

181
0
Mynd tekin 31. maí af vinnuvélum og búkollum sem notaðar eru við vegarvinnuna. Ekki verður þó langt að bíða að almennri umferð verði hleypt á brúna yfir Laxá og nýja veginn. Myndir: Hörður Ingimarsson.

„Staðan er helvíti góð. Erum að fara að malbika á morgun [á miðvikudag] niður á tenginu við hringveginn og svo förum við að vinna í efri burðarlögum og klæðningum og vonandi verðum við byrjaðir að klæða þegar líður að júlí,“ sagði Ámundi Rúnar Sveinsson, verkstjóri Skagfirskra verktaka, er Feykir forvitnaðist um stöðuna á veginum sem er í byggingu frá Hringvegi norðan Blönduóss að núverandi Þverárfjallsvegi, um 8,5 km að lengd, og nýs Skagastrandarvegar frá nýjum Þverárfjallsvegi að Skagastrandarvegi norðan Höskuldsstaða 3,3 km að lengd. Einnig verða byggðar nýjar tengingar og heimreiðar, samtals um 4,5 km að lengd.

<>

Ámundi segir ekki búið að ákveða hvenær umferð verði hleypt á veginn en vonast til að það verði ekki langt í það. „Það er ekkert búið að ákveða það ennþá en draumurinn er kannski að geta hleypt á einhvern hluta fyrir verslunarmannahelgina en hvort að það takist er ekki alveg vitað. Í ágúst hleypum við allavega á hluta vegarins og förum að vinna í tengingum, það er smá föndur þar.“

Brúin er heljarmikið mannvirki, 106 metra löng og 14 metra há.

Að sögn Ámunda hefur vegagerðin gengið vel og eins og sagt hefur verið frá tókst að ljúka við að steypa brúna yfir Laxána áður en vetur skall á eins og vonir stóðu til. Brúin er heljarmikið mannvirki, 106 metra löng og 14 metra há. Þá fylgir mikil vinna í uppsetningu á girðingum þar sem vegurinn klýfur sig í gegnum landareignir og því girt beggja vegna vegarins, nærri 20 km í heildina.

„Girðingarnar eru langt komnar og undirgöng á hverri landareign eða búfjárræsi. Það er sem betur fer farið að horfa í það þegar farið er í gegnum landareignir að setja niður rör svo bændur þurfi ekki að reka yfir vegina.“

Ámundi segir að um tíu manns starfi að jafnaði við vegagerðina en eigi eftir að fjölga þegar farið verður í vegklæðningar.

Óhætt er að fullyrða að margir bíði spenntir eftir því að fá að aka eftir þessum nýja vegi sem leysir af hólmi vegarkafla sem bæði er bæði mjór og hæðóttur. Samkvæmt útboðslýsingu á verkinu að vera lokið fyrir 1. nóvember. „Þetta gengur vel og vonandi geta allir keyrt næsta vetur nýja veginn,“ segir Ámundi Rúnar.

Heimild: Feykir.is