Home Fréttir Í fréttum Hægt gengur með Hamarsvirkjun

Hægt gengur með Hamarsvirkjun

192
0
Skýringarmynd frá Orkustofnun en hér er séð yfir vatnið og ofan í Hamarsdalinn eftir að virkjað hefur verið. Þetta yrði töluvert stór framkvæmd og ýmis náttúruverndarsamtök hafa lagst gegn virkjun hér. Mynd Orkustofnun

Sjö árum eftir að rannsóknarleyfi var gefið út vegna Hamarsvirkjunar í Djúpavogshreppi og þremur árum eftir að sá virkjunarkostur fór inn í fjórða áfanga rammaáætlunar er algjör pattstaða í verkefninu og fátt eitt að gerast.

<>

Þetta staðfestir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, sem hefur með verkefnið á höndum en það gengur út á að virkja vatnasvið Hamarsárinnar en sú á upptök sín í vötnum og tjörnum á Hraunum. Hugmyndirnar gera ráð fyrir þriggja kílómetra langri stíflu við Hamarsvatnið sjálft og vatninu veitt í inntakslón neðar í ánni. Þar yrði svo reist önnur stífla sem yrði allt að 50 metra há.

Aðspurður um hægaganginn í stjórnkerfinu segist Skírnir vart vita hvort hann eigi að hlæja eða gráta. Allt ferlið sé farið að minna á lélegan farsa.

„Við fengum rannsóknarleyfi árið 2016 og það gilti til ársins 2023 en sökum tregðu í stjórnsýslunni þá er nú búið að framlengja því til ársins 2028. Verkefnið fór inn í 4. áfanga rammaáætlunar ríkisvaldsins og þar störfuðu menn í ein fjögur ár án þess að skila neinni niðurstöðu. Maður hefði haldið að í kjölfarið yrði kallað eftir samtali eða samráðsferli en svo var ekki heldur rennt beint í 5. áfanga rammaáætlunar.

Á þeim vettvangi hefur verið starfað nú um tveggja ára  skeið og það er núna fyrst sem einhver samskipti eiga sér stað. Með öðrum, þá er fyrst að komast einhver hreyfing á hlutina sex árum eftir að hafa farið inn í rammaáætlun. Við höfum forvitnast um hvort okkar verkefni eins og Hamarsvirkjun þurfi virkilega að fara í fulla átta ára meðgöngu til að fá flokkun en við fáum þau svör að ekki sé hægt að svara neinu þar að lútandi.“

Skírnir ítrekar þó að nú loks sé komið á samtal á milli framkvæmdaraðila og verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

„Við erum að vinna á fullu núna því nú er lífsmark. Við erum að miðla upplýsingum og gögnum til þeirra og mér skilst að þau ætli sér á vettvanginn innan tíðar. Það ferli hefur sinn gang og við gerum ekkert annað á meðan en verða þeim innan handar. Hversu lengi þetta tekur frá þessu andartaki skal ég ekki segja. En svona óskilvirk stjórnsýsla mun fyrr en síðar þýða vesen og vandamál og myljandi skort á orku.“

Heimild: Austurfrett.is