Lægstbjóðendur í Arnarnesveg, Óskatak ehf. og Háfell ehf., hafa kært ákvörðun Vegagerðarinnar um að taka ekki tilboði fyrirtækjanna í framkvæmdina. Þau buðu sameiginlega í verkið og var tilboð þeirra 1.334 milljónum króna lægra en það tilboð sem Vegagerðin ætlar að ganga að. Verði það niðurstaðan mun gerð vegarins kosta 6.766 milljónir í stað 5.432 milljóna ella.
Kæran er til meðferðar hjá Kærunefnd útboðsmála, en Vegagerðin hefur allt að einu óskað eftir bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar um að heimilað verði að semja við Suðurverk hf. og Loftorku ehf. um framkvæmdina. Verði ekki við þeirri ósk orðið verður Vegagerðin að bíða með samningsgerð um verkið þar til endanleg niðurstaða í kærumálinu liggur fyrir.
Lægstbjóðendur telja að tilteknir skilmálar útboðsins séu ólögmætir, en Vegagerðin segir að þeir hafi ekki staðist útboðskröfur. Því áliti Vegagerðarinnar er hafnað.
Arnarnesvegurinn verður 1,3 kílómetra langur og er áformað að verkið taki þrjú ár og verklok áætluð sumarið 2026. Arnarnesvegur er hluti samgöngusáttmálans og munu Betri samgöngur ohf. greiða kostnaðinn við lagningu vegarins.
Heimild: Mbl.is