Home Fréttir Í fréttum Isavia og NIB undir­rita 50 milljón evra lána­samning

Isavia og NIB undir­rita 50 milljón evra lána­samning

88
0
Fv. Stefán Jón Friðriksson, lánastjóri NIB, og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. Ljósmynd: Aðsend mynd

Isavia ohf. og Nor­ræni fjár­festingar­bankann (NIB) undir­rituðu í dag samning um lán til tíu ára að fjár­hæð 50 milljóna evra, eða sem nemur jafn­virði um 7,5 milljörðum ís­lenskra króna. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Isavia.

<>

Um er að ræða lán vegna fram­kvæmda á Kefla­víkur­flug­velli, sér í lagi við austur­álmu flug­stöðvarinnar.

Um er að ræða 23 þúsund fer­metra við­byggingu við nú­verandi flug­stöð sem er um 30% stækkun.

Isavia gerir ráð fyrir að fram­kvæmdin fái fram­úr­skarandi ein­kunn á grund­velli BREEAM-vottunar­kerfisins. Hluta byggingarinnar verður tekin í notkun fyrir lok árs 2023 en hú verður tekin í notkun að fullu lokið árið 2024.

Svein­björn Indriða­son, for­stjóri Isavia, segir í til­kynningu að fé­lagið hafi sett sér metnaðar­full en um leið af­mörkuð og skýr mark­mið í um­hverfis­málum og fylgi ítar­legri að­gerðar­á­ætlun til að koma sjálf­bærni­stefnu Isavia í fram­kvæmd.

„Upp­byggingin er vottuð með BREEAM sem er óháð vottun sem tryggir mikil­vægt að­hald og að sjálf­bærni verði höfð að leiðar­ljósi í fram­kvæmdunum. Stefnt er að því að minnka kol­efnis­spor fram­kvæmda, minnka vatns- og raf­magns­notkun og við­halda grænum svæðum og líf­fræði­legum fjöl­breyti­leika í hönnun og fram­kvæmd.“

Svein­björn segir mikil­vægt að fá NIB að borðinu þar sem mörg verk­efni séu fram undan í fram­kvæmdunum.

„Við erum að bæta við flug­stöðvar­bygginguna og fram­kvæma á aksturs­brautum – allt til að bæta þjónustuna við not­endur Kefla­víkur­flug­vallar.“

André Küüsvek, for­stjóri og stjórnar­for­maður NIB, segir í til­kynningu Isavia að láns­samningurinn sýni fram á mikil­vægi lang­tíma fjár­festingar í flug­geiranum til að styðja við efna­hags­vöxt og flug­tengingar.

„Kefla­víkur­flug­völlur er mikil­væg tengi­stöð fyrir ferða­þjónustu á Ís­landi og þess er vænst að hún leiki mikil­vægt hlut­verk í efna­hag landsins,” segir Küüsvek.

Nor­ræni fjár­festingar­bankinn er al­þjóð­leg fjár­mála­stofnun í eigu aðildar­landanna átta: Dan­merkur, Eist­lands, Finn­lands, Ís­lands, Lett­lands, Litá­ens, Noregs og Sví­þjóðar. Bankinn lánar til opin­berra verk­efna og einka­verk­efna jafnt innan sem utan aðildar­ríkjanna.

Heimild: Vb.is