Home Fréttir Í fréttum Örlög Fjarðarheiðarganga ráðast brátt

Örlög Fjarðarheiðarganga ráðast brátt

76
0
Fyrirhugaður gangamunni Egilsstaðamegin. Úr matsskýrslu Vegagerðarinnar – Mannvit

Þótt kominn sé miður maí lenti fjöldi ökumanna í vandræðum í vetrarfærð á Fjarðarheiði fyrr í vikunni. Vegagerðin er tilbúin að bjóða út Fjarðarheiðargöng á árinu en ríkið þarf líklega fyrst að stofna sérstakt félag sem tekur gjald í jarðgöngum.

<>

Fjarðarheiðargöng, á milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða, verða rúmlega 13 kílómeta löng og er nú beðið eftir niðurstöðu verkefnastofu um fjármögnun flýtiframkvæmda og að Alþingi afgreiði nýja samgönguáætlun. Nokkur umræða hefur verið um hvort frekar ætti að tengja Seyðisfjörð fyrst við Neskaupstað um Mjóafjörð. Þessir valkostir voru allir metnir í skýrslu og sviðsmyndagreiningu KPMG fyrir fjórum árum og var niðurstaðan að byrja ætti á Fjarðarheiðargöngum.

„Það er algjör samstaða um það og það hefur verið ítrekað á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi. En það er líka rétt að við erum að horfa ekki bara á göngin milli Héraðs og Seyðisfjarðar heldur að það haldi síðan áfram gangagerð frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og frá Mjóafirði til Neskaupstaðar. Þannig náum við að tryggja að allir íbúar svæðisins nái að nýta þá þjónustu sem hér er til staðar. Hvort heldur hún er á Héraði eða niðri á fjörðum,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Göngin þjóni ekki bara íbúum Seyðisfjarðar
Hefjist framkvæmdir á næsta ári eins og stefnt hefur verið að yrðu göngin tilbúin 2030. Sumum þykir mikið að setja rúma 46 milljarða í jarðgöng til staðar með tæplega 700 íbúa en bent er á að göngin spari snjómokstur og þjóni ekki bara Seyðfirðingum. Um Seyðisfjörð og ferjuna Norrænu liggi eina tenging íslenska vegakerfisins við það evrópska.

„Þetta snýst ekki bara um það að við hér uppi á Héraði komumst á Seyðisfjörð og að Seyðfirðingar komist hingað upp á Hérað. Þetta er gífurlega mikilvægt fyrir bara til að mynda fiskútflutning norður í landi og útflutning frá fiskeldinu á Djúpavogi og annars staðar hér á Austurlandi. Þannig að þetta snýst ekki bara um að tengja tvo kjarna innan eins sveitarfélags. Þetta snýst um hagsmuni alls svæðisins,“ segir Björn.

„Ljónheppin“ að hafna á skilti
Eftir vandræðin á Fjarðarheiði í byrjun vikunnar birti Hildur Þórisdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi, færslu á Facebook þar sem hún lýsti meðal annars nýlegum hrakförum sínum á heiðinni:

„Sjálf var ég ljónheppin í vor þegar ég keyrði einn morguninn til fundar við innviðaráðherra en missti stjórn á bílnum í flughálku. Það varð mér til happs að skilti ýtti bílnum upp á veg þegar bíllinn skautaði niður brekkuna. Ef þess hefði ekki notið við hefði bílferðin endað með bílveltu.“

Hún segir veginn um Fjarðarheiði valda tjóni, kostnaði og töpuðum tækifærum og fullyrðir að ráðamenn dragi lappirnar við að greiða úr fjármögnun.

„Kostnaður er gríðarlegur vegna ónýttra tækifæri fyrir atvinnulífið. Fyrir ferðaþjónustuna sem getur ekki haldið úti þjónustu yfir veturinn vegna óvissu með samgöngur en er uppseld hina 6 mánuði ársins.

Fyrir fjárfesta sem vilja ekki taka áhættuna á meðan göngin eru ekki komin. Fyrir byggingaraðila sem hafa áhuga á að byggja húsnæði en fá ekki reikningsdæmið til að ganga upp. Fyrir þá fjölmörgu sem lenda í ógöngum á heiðinni með tilheyrandi tjóni á farartækjum og heilsu.“

Illt færi og varasamt þó heiðin sé skráð opin
Fjarðarheiði er reyndar ekki ófær heilan dag nema nokkrum sinnum á ári en illt færi, slæmt skyggni og ófærð hluta úr degi eru nokkuð algeng yfir háveturinn.

Á sunnudagskvöldið lenti fjöldi ökumanna í vandræðum á heiðinni þó kominn væri miður maí. Vegurinn yfir heiðinna liggur í yfir 500 metra hæð á 9-10 kílómetra löngum kafla og þar er oft blint og erfið aksturrskilyrði þó veður sé skaplegt niðri í byggð.

„Þó að suma vetur séu fáir lokunardagar þá koma tímabil þar sem lokunardagar eru margir. Og þetta er líka spurning um öryggismál fyrir íbúa og að það séu tryggar leiðir fyrir þá aðila sem eru bæði að flytja hér inn ferðamenn og vörur og út úr landinu,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Heimild: Ruv.is