Home Fréttir Í fréttum Biðin eftir nýrri þjóðarhöll gæti lengst

Biðin eftir nýrri þjóðarhöll gæti lengst

83
0
Áætlað er að ný þjóðarhöll kosti rúma 14 milljarða. UMFÍ

Landsmenn gætu þurft að bíða lengur eftir nýrri þjóðarhöll í Laugardal. Forsætisráðherra segir hægja þurfi á verkefninu vegna efnahagsástandsins.

<>

Hugmyndir um að byggja nýja þjóðarhöll í Laugardal hafa verið á teikniborðinu í nokkuð langan tíma. Fyrir liggur að núverandi höll uppfyllir ekki alþjóðlegar kröfur um keppnisaðstöðu landsliða.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu fyrir ári síðan viljayfirlýsingu um uppbyggingu þjóðarhallar í Laugardal.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni á ríkið að borga kostnað sem fellur til vegna þarfa sérsambanda og alþjóðlegra krafna til keppnisaðstöðu landsliða. Reykjavíkurborg á svo að borga kostnað vegna þarfa íþróttafélaga og íþróttakennslu. Áætlað er að húsið kosti rúma fjórtán milljarða og taki 8.600 manns í sæti samkvæmt frumathugun sem var kynnt í janúar. Þá var stefnt að því að taka höllina í notkun árið 2025.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins spurði forsætisráðherra um stöðu málsins á Alþingi í dag.

„En svo kom fjármálaáætlun til ársins 2028. Og hvar er þjóðarhöllin í þeirri fjármálaáætlun? Voru fundirnir blekking eða er fjármálaáætlunin blekking?“ sagði Sigmundur.

Einbeittur vilji til að klára verkið
Forsætisráðherra svaraði því til að það væri einbeittur vilji ríkisstjórnarinnar að byggja þjóðarhöllina. Það væri einnig vilji íþróttahreyfingarinnar að hún rísi í Reykjavík og þess vegna þurfi að ljúka samkomulagi við borgina um kostnaðarskiptingu.

„Það er vissulega fjárfestingarsvigrúm í fjármálaáætluninni, en við erum á sama tíma að segja að það sé ekki hægt að gera allt í einu þegar við erum stödd í því efnahagsástandi sem við erum í núna. Þar af leiðandi hægjum við aðeins á ferðinni, enda liggur ekki enn þá fyrir endanlegt samkomulag ríkis og borgar um kostnaðarskiptingu. Er einhver að ganga á bak orða sinna hér? Nei. Er stefnan skýr? Já. Erum við að standa við orð okkar? Já,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Heimild: Ruv.is