Home Fréttir Í fréttum Tvenn göng á Mið-Austurlandi áætluð sjö milljörðum ódýrari

Tvenn göng á Mið-Austurlandi áætluð sjö milljörðum ódýrari

104
0
Freyr Pálsson, hönnunarstjóri Fjarðarheiðarganga hjá Vegagerðinni. EGILL AÐALSTEINSSON

Ákvörðun um lengstu og dýrustu veggöng Íslands, Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar, bíður Alþingis núna á vordögum. Annar valkostur, sem margir Austfirðingar hallast fremur að, tvenn göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, yrði hins vegar sjö milljörðum króna ódýrari, að mati Vegagerðarinnar.

<>

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en eftir að gerð Dýrafjarðarganga lauk fyrir nærri þremur árum hefur jarðgangagerð legið niðri hérlendis. Hjá Vegagerðinni miðast undirbúningur við að Fjarðarheiðargöng verði næst.

Freyr Pálsson, hönnunarstjóri Fjarðarheiðarganga hjá Vegagerðinni, segir að hægt verði að byrja á göngunum á næsta ári, 2024, svo fremi að fjármögnun liggi fyrir.

Þegar 46 milljarða króna og 13,3 kílómetra löng Fjarðarheiðargöng eru borin saman við 12 milljarða króna og 5,3 kílómetra löng Dýrafjarðargöng sést hversu yfirþyrmandi stór austfirsku göngin eru, bæði í lengd og kostnaði.

Fjarðarheiðargöng eru talin verða nærri fjórfalt dýrari en Dýrafjarðargöng.
GRAFÍK/SARA RUT FANNARSDÓTTIR

Og nýlegt útboð í breikkun Reykjanesbrautar, sem skilaði fjögurra milljarða króna tilboði, og þykir stórt verk, er þó bara einn tólfti af göngunum.

Þegar spurt er hversvegna kostnaðaráætlun Fjarðarheiðarganga hækkaði á einu ári um ellefu milljarða króna eru fjórir milljarðar skýrðir með verðlagshækkun.

„Þá ertu kominn upp í 39 milljarða, frá 35,“ segir Freyr.

Hann segir meiri vegagerð þýða aukinn kostnað. Þá kalli lengd ganganna og vatnsleki á að bora þurfi könnunarholur jafnóðum í varúðarskyni.

„Það er meira vatn yfir okkur. Það er lengra fjall sem við erum að fara undir. Lengri leið. Og mögulegur meiri vatnsagi. En þetta eigum við alveg að þola,“ segir Freyr.

Þá verði göngin breiðari.

„Göngin verða meter breiðari og þetta kostar frekari styrkingar líka. Þannig að kostnaður við styrkingar hefur líka aukist um tuttugu prósent,“ segir Freyr.

Meðan Fjarðarheiðargöng eru talin kosta 46,3 milljarða áætlar Vegagerðin að tvenn göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar um Mjóafjörð, alls 12,4 kílómetra löng, myndu með tengivegum kosta 39,5 milljarða eða um sjö milljörðum minna.

Rauði leggurinn táknar Fjarðarheiðargöng milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar. Grænu leggirnir eru hinn valkosturinn, tvenn göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar um Mjóafjörð.
GRAFÍK/SARA RUT FANNARSDÓTTIR

Verktími ganga um Mjóafjörð yrði fjögur og hálft til sex ár miðað við sjö ár undir Fjarðarheiði.

„Það eru tvenn göng og við getum þá grafið þau hraðar frá fjórum stöfnum, sem sagt sitthvorum enda ganganna.“

Hönnun og umhverfismat eru hins vegar eftir fyrir hinn valkostinn, gangatvennu um Mjóafjörð.

„Við þyrftum svona fjögur ár í undirbúningstíma, þrjú til fjögur ár.“

-Þannig að þau yrðu ekki tilbúin mikið fyrr?

„Nei, þau yrðu ekki tilbúin mikið fyrr,“ svarar hönnunarstjóri Fjarðarheiðarganga.

Heimild: Visir.is