Home Fréttir Í fréttum Furðar sig á tregðu til að lána til framkvæmda úti á landi

Furðar sig á tregðu til að lána til framkvæmda úti á landi

84
0
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir fjármálafyrirtæki óviljug til að lána til framkvæmda á landsbyggðinni á sambærilegum kjörum og á til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. RÚV – Bragi Valgeirsson

Erfiðlega hefur gengið að fá einkaaðila til samstarfs við ríkið um samgönguframkvæmdir í Hornafirði og Öxi. Innviðaráðherra segir lánafyrirtæki krefjast hærri vaxta af lánum til framkvæmda á landsbyggðinni.

<>

Innviðaráðherra furðar sig á tregðu fjármálafyrirtækja til að lána fyrir vegaframkvæmdum á landsbyggðinni. Hann útilokar þó ekki að unnt verði að fá einkaaðila til samstarfs um vegaframkvæmdir.

  • Hringvegurinn við Selfoss og ný Ölfusárbrú
  • hringvegur um Hornafjarðarfljót
  • Axarvegur á milli Egilsstaða og Djúpavogs
  • tvöföldun Hvalfjarðarganga
  • hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli
  • og Sundabraut

eru þær sex vegaframkvæmdir sem tilgreindar eru í lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir. Erfiðlega hefur hins vegar gengið að fá einkaaðila að borðinu svo unnt sé að ráðast í framkvæmdirnar í samvinnu við ríkið.

Framkvæmdir eru aðeins hafnar við eitt verkefni, hringveg um Hornafjarðarfljót, og þar hefur ekki enn tekist að fá einkaaðila að borðinu.

Er útséð með það, þarf ríkið að borga þetta sjálft?

„Nei, það held ég alls ekki. Við erum með verkefnastofu, innviðaráðuneytið hér og fjármálaráðuneytið sem er að vinna að þessari greiningu, að leggja á bensín- og díselgjöld til að fá tekjur inn í kerfið en einnig að skoða hvaða leiðir við höfum aðrar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Bæði Öxi og Hornafjarðarfljót séu lítil verkefni.

„Svo held ég því miður að það hafi komið í ljós að þar sem þau eru svolítið langt úti á landi, að það hafi haft áhrif á þá sem taka ákvarðanir um hvort þeir bjóði í og hversu hárra vaxta þeir krefjist,“ segir Sigurður Ingi.

Þannig að það sé ekki hagkvæmt fyrir fyrirtæki að fara í framkvæmdir úti á landi?

„Það er oft einhver aukin áhætta að mati fyrirtækjanna, sem oft eru staðsett hér, fólgin í því að lána peninga út á land. Það er eins og þau vilji bæði hafa belti og axlabönd,“ segir Sigurður Ingi.

Ertu að segja að það séu landsbyggðarfordómar hjá fyrirtækjum?

„Nei, fjármálafyrirtækin eru einfaldlega óviljug til að lána á sambærilegum kjörum ef þú ert ekki með veð hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sigurður Ingi.

Hvað finnst þér um það?

„Það er ekki gott. Við búum í einu landi en þetta er það sem við erum að bregðast við,“ segir Sigurður Ingi.

Heimild: Ruv.is