Home Fréttir Í fréttum Ríkið er að gefast upp á samvinnuleið við vegaframkvæmdir

Ríkið er að gefast upp á samvinnuleið við vegaframkvæmdir

227
0
Jarðýta leggur út efni í nýjan Fljótaveg yfir Hornafjarðarfljót. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Ríkið virðist vera að gefast upp á svokallaðri samvinnuleið til samgöngubóta. Svo gæti farið að slík verkefni sem ríkið ætlaði að flýta með aðkomu einkaaðila og veggjöldum verði þess í stað fjármögnuð með hefðbundnum hætti.

<>

Í lögum um samvinnuverkefni eru tilgreindar sex vegbætur sem ríkið gæti unnið í samvinnu við einkaaðila. Þeir myndu fjármagna framkvæmdir allar eða að hluta og innheimta veggjöld í allt að 30 ár.

Þetta eru hringvegur við Selfoss og ný Ölfusárbrú, hringvegur um Hornafjarðarfljót, Axarvegur á milli Egilsstaða og Djúpavogs, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli, og Sundabraut.

Ekki forsendur til að vinna samvinnuverkefni eins og til stóð
Framkvæmdir eru aðeins hafnar við eitt verkefni, hringveg um Hornafjarðarfljót, og þar hefur ekki enn tekist að fá einkaaðila að borðinu. Fram kemur í nýrri fjármálaáætlun til 2028 að ekki hafi reynst forsendur til að vinna þessi samvinnuverkefni á þeim grunni sem til stóð. Ráða þurfi fram úr fjármögnun og meta hvort sumar vegbæturnar ætti að kosta með hefðbundnum hætti, það er að ríkið borgi þær eins og annað á samgönguáætlun.

Ný Ölfusárbrú er reyndar tekin út fyrir sviga og sagt að hana mætti mögulega fjármagna með sérstökum hætti, svo sem veggjöldum sem Innviðaráðuneytið og Fjármála- og efnahagsráðuneytið myndu útfæra.

Innviðafélag grafi 14 göng á 30 árum
Ráðuneytin ætla í sameiningu að endurskoða alla gjaldtöku af ökutækjum og umferð meðal annars hugmyndir um gjaldtöku í öllum jarðgöngum til að flýta framkvæmdum. Sérstök verkefnastofa á að móta þessar tillögur.

Til stendur að flýta gerð jarðganga og grafa 14 göng fyrir um 275 milljarða á 30 árum sem annars tæki 80-100 ár. Til greina kemur að innviðafélag ríkisins haldi utan um slíkar flýtiframkvæmdir. Félagið gæti eignast samgönguinnviði svo sem þau jarðgöng sem þegar hafa verið grafin og hefði heimild til að taka lán, að því er fram kemur í fjármálaáætlun.

Heimild: Ruv.is