Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur víða leitað svara um raunverulega kostnaðaráætlun Fossvogsbrúar en án árangurs – nú síðast á borgarstjórnarfundi.
Fyrir rúmum tveimur árum var talað um að kostnaður brúarinnar gæti numið 2,2 milljörðum króna, en Kjartan telur augljóst að það sé vanmat. Telur hann að kostnaðurinn verði frá fimm til sjö milljörðum króna.
Kjartan lagði fram fyrirspurn um kostnað brúarinnar í borgarráði og tók svo málið upp á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn.
„Þar beindi ég spurningu til borgarstjóra og vakti athygli á fyrirspurninni en fékk ekkert svar,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is.
Leitað svara í allan vetur
„Ég hef í allan vetur verið að reyna að fá upplýsingar um hver áætlaður kostnaður brúarinnar sé. Þetta er stærsta samgönguframkvæmd á höfuðborgarsvæðinu í mörg ár,“ segir Kjartan.
Hann segir brösuglega hafa gengið að fá svör en í desember hafi hann fengið svar frá umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur þar sem talað var um kostnað brúarinnar upp á 2,2 milljarða króna.
„Talan var þá tveggja ára gömul og var byggð á einhvers konar frummati. Síðan hefur samkeppni farið fram um hönnun brúarinnar og ég trúi ekki öðru en það hafi einhvers konar kostnaðaráætlun verið unnin því það er alveg út í hött að miða við 2,2 milljarða,“ segir Kjartan.
„Það er alveg augljóst að þetta er orðin hærri upphæð en þetta og þess vegna er svo skrítið að það skuli vera lagt fram með opinberu ráði þetta svar sem er greinilega orðið úrelt og mjög furðulegt að það eigi að halda svona hlut leyndum fyrir kjörnum fulltrúum. Það er almannafé sem á að fara í þetta.“
Mögulega verið að reyna forðast óþægilega umræðu
Kjartan segist óttast að hugsunin sé sú að verið sé að halda raunverulegri kostnaðaráætlun leyndri til að forðast óþægilega umræðu.
„Framkvæmdir eru í raun byrjaðar við brúna. Fyrir áramót hófst færsla rafmagnsstrengja vegna brúarinnar sem borgin sá um. Þær kostuðu um 200 milljónir króna,“ segir Kjartan.
Heimild: Mbl.is