Bæjarstjórnin í Hveragerði hafnaði öllum tilboðum sem bárust í nýja íþróttahöll, sem stendur til að reisa í stað upplásnu hallarinnar sem eyðilagðist í fárviðri í fyrra. Öll tilboðin voru hærri en kostnaðaráætlun bæjarstjórnar.
Hamarshöllin í Hveragerði gjöreyðilagðist í illviðri í febrúar í fyrra. Höllin, sem var upplásin, hreinlega sprakk eftir að gat kom á hana í óveðrinu. Upphaflega var ákveðið að reisa aðra eins íþróttahöll, en eftir kosningar í fyrra ákvað nýr meirihluti að byggja einangrað hús með burðarvirki úr stáli. Ekki hafi fengist fullnægjandi svör frá framleiðanda uppblásnu Hamarshallarinnar um hvers vegna húsið eyðilagðist og því þurfi að skoða varanlegri lausnir.
Samkvæmt kostnaðaráætlun bæjarins ætti ný Hamarshöll að kosta tæpan 1,1 milljarð króna. Fimm tilboð bárust, en kostnaður þeirra var frá ríflega 1,2 milljörðum allt upp í tæpa 2,5 milljarða. Öllum tilboðum var því hafnað, þar sem þau voru of há.
Stefnt að því að ná samningum fyrir sumarið
Varaforseti bæjarstjórnar, Njörður Sigurðsson, segir í samtali við fréttastofu að nú hefjist samningaviðræður við þá sem lögðu fram gild tilboð, og reynt að ná ásættanlegri niðurstöðu, sem rúmist innan kostnaðaráætlunar. Hann segir miklu máli skipta að ljúka þeim viðræðum sem fyrst, svo hægt verði að ráðast í framkvæmdir í sumar. Hann býst við að niðurstaða liggi fyrir á næstu vikum.
Njörður segir að ný íþróttahöll sé mjög mikilvæg fyrir íþróttalífið í bænum, en íþróttastarf hefur í millitíðinni farið fram í Skólamörk, gömlu íþróttahúsi í bænum, sem er einungis á stærð við lítinn handboltavöll.
Stefnt er að því að ný Hamarshöll rísi á grunni þeirrar gömlu. Upphaflega stóð til að hún yrði tilbúin í haust, en óvíst er hvort það náist úr þessu.
Heimild: Ruv.is