Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti á fundi sínum síðastliðinn mánudag að hafna öllum tilboðum sem bárust í hönnun og byggingu nýrrar Hamarshallar.
Fjögur verktakafyrirtæki sendu inn tilboð og voru þau öll yfir kostnaðaráætlun sveitarfélagsins sem er tæpur 1,1 milljarður króna. Lægsta tilboðið átti Stálgrindarhús ehf, 1.229 milljónir króna.
Í samþykkt bæjarstjórnar að segir að ástæða höfnunarinnar sé sú að tilboðin séu of há miðað við fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar og teljast því þau óaðgengileg í skilningi laga um opinber innkaup.
Í þeim lögum er heimild til að efna til samkeppnisviðræðna við þá bjóðendur sem uppfylltu hæfniskröfur útboðsins og samþykkti bæjarstjórn að fela bæjarstjóra að hefja þær viðræður strax.
Tilboðin langt umfram getu bæjarins
Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum meirihlutans en fulltrúar D-listans sátu hjá og létu þeir færa til bókar að bæði heildarkostnaðurinn og framkvæmdatíminn sé áhyggjuefni.
„Þannig er lægsta tilboðið sem kom fram í útboðinu um 64% yfir upphaflegri fjárhagsáætlun. Tilboðin eru það langt umfram getu bæjarfélagsins að lítil sem engin von er til að viðræður við tilboðsgjafana leiði til farsællrar lausnar og muni tefja málið til skaða fyrir bæjarbúa,“ segir í bókun fulltrúa D-listans og benda þeir á að aðrar leiðir séu fjárhagslega raunhæfari og fljótlegri, t.d. gervigrasvöllur í fullri stærð, viðbygging við núverandi íþróttahús eða loftborið hús.
Heimild: Sunnlenska.is