Home Fréttir Í fréttum Eigendur lúxusíbúða við Hafnartorg þurft að flýja vegna hávaða

Eigendur lúxusíbúða við Hafnartorg þurft að flýja vegna hávaða

113
0
Böðvar Héðinsson hefur fengið sig fullsaddan af hávaðanum á jarðhæðinni. – Kristinn Þeyr Magnússon

Íbúðareigendur við Kolagötu við Hafnartorg vilja pílustaðinn Skor burt. Þeir vilja meina að staðurinn sé skemmtistaður, ekki veitingastaður, og lýsa miklum hávaða.

<>

Íbúar lúxusíbúða við Hafnartorg segjast sumir þurfa að flýja heimili sín um helgar vegna hávaða frá pílustað á jarðhæð byggingarinnar. Hávaðanum svipi til þess að vera á knattspyrnuleik. Lögmaður íbúanna segir heilbrigðiseftirlitið sýna valdníðslu.

Pílustaðurinn Skor nýtur mikilla vinsælda, sérstaklega hjá stærri hópum og vinnustöðum, sem etja kappi í pílukasti eða syngja í karíókí. Staðurinn er þó ekki eins vinsæll hjá íbúum lúxusíbúðanna á efr hæðinni, sem hafa kvartað sáran undan hávaða, steikarbrælu og ónæði frá gestum staðarins.

„Það sem mér persónulega þykir verst eru þessi öskur – svona rokur sem koma þarna. Og svo mæta vinnustaðir og keppa í þessum leikjum og það liggur við að það sé eins og maður sé kominn inn á knattspyrnuleik,“ segir Böðvar Héðinsson, íbúi í byggingunni.

Fá leyfi, fá ekki leyfi, fá leyfi ….
Kvartanirnar eru þó ekki nýjar af nálinni og málið hefur raunar farið heilan hring í kerfinu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur veitti pílustaðnum starfsleyfi, það var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi starfsleyfið úr gildi. Um sólarhring síðar, eða nú á föstudag, gaf heilbrigðiseftirlitið út nýtt tímabundið starfsleyfi á meðan málið er skoðað betur.

„Eins og þetta horfir við mér þá virðist þetta vera hrein og klár valdníðsla af hálfu heilbrigðiseftirlitsins,“ segir Lúðvík Bergvinsson.
– Kristinn Þeyr Magnússon

„Það er varla búið að birta úrskurðinn þegar Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefur út nýtt starfsleyfi í andstöðu við úrskurðinn,“ segir Lúðvík Bergvinsson, lögmaður íbúanna. „Eins og þetta horfir við mér þá virðist þetta vera hrein og klár valdníðsla af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.“

Rúmlega fjörutíu íbúar lögðu fram kæru vegna staðarins og benda á að hugmyndafræðin með Hafnartorgi hefði verið sú að þar ættu að vera skrifstofur, verslanir og lúxusíbúðir.

„En síðan er eins og reglum sé allt í einu breytt án þess að talað sé við nokkurn mann,“ segir Böðvar.  „Opnaður skemmtistaður – pílustaður sem gerir út á drykkjuleiki og karókí. Helsta markmið þeirra, eins og þeir segja sjálfir, er að selja á annað hundrað lítra af bjór á hverjum degi.“

– Kristinn Þeyr Magnússon

Hefur mikil áhrif á verðgildi íbúðanna
Verðgildi íbúðanna hafi þar af leiðandi hríðfallið. Aðspurður segir Böðvar að fólk hafi vissulega verið meðvitað um að miðbænum fylgi jafnan hávaði – en sannarlega ekki af þessu kalíberi. Íbúarnir telja að pílustaðurinn eigi að vera í flokki skemmtistaða, ekki veitingastaða eins og hann sé nú.

Lúðvík segir að reksturinn sé ólöglegur og að farið sé fram á að starfsleyfið verði fellt úr gildi. „Eðlilega því þessi staður á ekki heima og fer ekki saman við íbúðir og heimili fólks.“

Böðvar tekur undir það. „Sumir flýja heimili sín um helgar, það er svo slæmt. Og þetta er bara sorgarsaga,“ segir hann.

Heimild: Ruv.is