Stórar breytingar munu verða á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Til stendur annað hvort að reisa brú við gatnamótin eða að afnema vinstri beygju þar alfarið. Við breytingar verður mikið tillit verður tekið til uppbyggingar fyrirhugaðrar borgarlínu.
Kynningarfundur um breytingar var haldinn klukkan 17:00 í gær í húsakynnum Reykjavíkurborgar í Borgartúni 14. Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Betri samgöngur stóðu að fundinum.
„Þetta hefur áður verið til umræðu fyrir mörgum árum og nú er þessi vinna að fara aftur í gang,“ segir Kristján Árni Kristjánsson, verkefnastjóri Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
Hann segir að niðurstaðan komi úr greiningu sem unnin var fyrir nokkrum árum til þess að finna lausnir fyrir umferð á Reykjanesbrautinni.
Umferðarljósin verða afnumin
Tvennar breytingar koma til greina við gatnamótin, annars vegar að reisa brú við með vinstri beygju en hins vegar að fjarlæga alfarið vinstribeygju við gatnamótin. Í báðum tilfellum yrðu umferðarljósin afnumin.
„Fyrir allar lausnir verða ljósin afnumin, hvort sem það yrði bara hægri inn og út eða hvort við verðum með vinstri beygju á brú,“ segir Kristján
Mikið tillit tekið til Borgarlínunnar
„Endanleg lausn fyrir gatnamótin við Bústaðaveg verður ekki valin fyrr en við erum búin að sjá hvaða leið fyrir Borgarlínu hentar best,“ segir Kristján og bætir við að breytingarnar séu gerðar með hliðsjón af uppbyggingu Borgarlínunnar. Þá þurfi að fá á hreint hvoru megin við götuna Borgarlínan liggi.