Home Featured Fréttir Landsvirkjun og Jarðboranir hf. undirrita samning um boranir á Norðausturlandi

Landsvirkjun og Jarðboranir hf. undirrita samning um boranir á Norðausturlandi

195
0
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana, skrifuðu undir samning um boranir vegna gufuöflunar fyrir Þeistareykjavirkjun.

Landsvirkjun og Jarðboranir hf. hafa undirritað verksamning um borun allt að 10 gufuhola á Norðausturlandi. Verkið kemur einkum til vegna gufuöflunar fyrir 2. áfanga Þeistareykjavirkjunar, en til stendur að taka hann í notkun á 2. ársfjórðungi 2018. Á Þeistareykjum er tiltækt gufuafl í núverandi borholum sem jafngildir ríflega 50 MW rafafls og nægir það fyrir 1. áfanga virkjunar. Stefnt að því að nýjar holur skili að minnsta kosti sambærilegu afli. Samningurinn er einn umfangsmesti borsamningur sem Landsvirkjun hefur gert á undanförnum árum, en hann hljóðar upp á rúmlega 3,3 milljarða króna.

<>

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Það er fagnaðarefni að hafa náð samningum við jafn öflugan aðila og Jarðboranir um boranir vegna gufuöflunar við Þeistareyki. Samningurinn er mikilvægur þáttur í uppbyggingu virkjunarinnar, en framkvæmdin er viðamikil og hefur gengið vel til þessa.“

Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana:

„Þetta er afar ánægjuleg niðurstaða fyrir Jarðboranir enda er um að ræða stærsta útboð jarðhitaborana á Íslandi seinni ára. Það skiptir miklu máli fyrir félag eins og okkur, þar sem sveiflur geta verið miklar, að landa langtímaverkefnum. Verkefni þetta er því mjög mikilvægt fyrir fyrirtækið og tryggir samfellda starfsemi á Íslandi til viðbótar við erlenda starfsemi félagsins.

Jarðboranir og Landsvirkjun hafa átt farsælt samstarf í yfir 50 ár og er þetta verkefni einkar ánægjulegt framhald á því.“

Landsvirkjun vinnur nú að uppbyggingu 90 MW Þeistareykjavirkjunar, en vinna við uppbyggingu stöðvarhúss og lagningu veitumannvirkja hófst á liðnu sumri. Áætlanir gera ráð fyrir að byggingu mannvirkja ljúki í árslok, en þá koma inn á vinnusvæði verktakar sem setja upp vélar og rafbúnað. Stefnt er að því að hefja prófanir á búnaði virkjunar strax í júní 2017 og að fyrri aflvél hennar fari í rekstur í október sama ár.