Home Fréttir Í fréttum Byggingaverktaki ákærður fyrir skattsvik upp á yfir 150 milljónir króna

Byggingaverktaki ákærður fyrir skattsvik upp á yfir 150 milljónir króna

396
0
Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: Sigtryggur Ari

Þann 18. apríl verður aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli gegn Tómasi Davíð Lúðvíkssyni, sem ákærður er fyrir stórfelld skattsvik í rekstri tveggja einkahlutafélaga.

<>

Félögin heita GS77 ehf. og P 88 ehf. Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara er fyrrnefnda félagið einnig ákært auk Tómasar sjálfs, en bæði félögin eru gjaldþrota og afskráð. Rekstur beggja snerist um byggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis.

Tómas, sem er fæddur árið 1979, er í fyrsta lagi sakaður um að hafa skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir P 88 fyrir hluta rekstrarársins 2019, vanframtalið virðisaukaskattsskylda veltu upp á rétt rúmlega 80 milljónir króna og ekki skilað virðisaukaskatti upp á rúmlega 19 milljónir.

Hann er ákærður fyrir samskonar brot í rekstri GS77 og þar nema vanskilin 26 milljónum króna.

Hann er einnig ákærður fyrir að hafa ekki talið fram skattskyldar tekjur félaganna beggja upp á 270 milljónir króna fyrir tekjuárin 2019 og 2020 og vangreitt tekjuskatt og útsvar upp á rúmlega 110 milljónir króna.

Héraðssaksóknari krefst þess að Tómas verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Miðað við dómafordæmi má hann búast við skilorðsbundnum fangelsisdómi og himinhárri fjársekt.

Dæmdur fyrir ýmis brot

Tómas á að baki nokkur brot gegn almennum hegningarlögum. Árið 2014 var hann ásamt þremur öðrum manneskjum, tveimur körlum og einni konu, dæmdur fyrir ýmiskonar þjófnaðarbrot sem unnin voru í sameiningu. Brotin voru umfangsmikil og ákæruliðir margir. Var Tómas þá dæmdur í tveggja ára fangelsi. Árið 2009 hlaut hann tvo dóma fyrir fíkniefnlagabrot.

Heimild: DV.is