Home Fréttir Í fréttum Þorkell í Smíðalandi sakfelldur – Segist ekkert vit hafa á bókhaldi –...

Þorkell í Smíðalandi sakfelldur – Segist ekkert vit hafa á bókhaldi – Fjármálastjórinn fékk yfir 300 milljónir

247
0
Frá Smiðshöfða 7 þar sem erlendu verkamennirnir bjuggu. Mynd: Já.is

Þorkell Kristján Guðgeirsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjanna Smíðaland og 2findjob, hefur verið sakfelldur fyrir stórfelld skattalagabrot í rekstri félaganna á árunum 2016 til 2018. Þorkell, sem er rúmlega sextugur, var á árum áður húsasmíðameistari en stofnaði Smíðaland árið 2016.

<>

Hann stofnaði síðan systurfyrirtækið 2findjob, sem var starfsmannaleiga. Í dag býr Þorkell í Noregi og er öryrki.

Sumarið 2021 var Þorkell sakfelldur fyrir hættubrot við rekstur 2findjob en hann lét erlenda starfsmenn búa í verksmiðjuhúsnæði við Smiðshöfða 7. Vistarverum þeirra var lýst sem hættulegum „svefnskápum“. Var Þorkell dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þetta.

„Þetta var það alvarlegt og í reynd eitt ljótasta mál sem við höfum staðið frammi fyrir að við töldum mikilvægt að leggja okkar kæru fram og í raun er um prófmál að ræða,“ sagði Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í viðtali við Vísir.is á sínum tíma. Bætti hann við að hann hefði ekki séð annað eins á 30 ára ferli sínum í slökkviliðinu.

Bókarinn tók út stafla af peningum

Skattalagabrotin snúast um vanskil á virðisaukaskatti, staðgreiðslu skatta og launatengdum gjöldum fyrir rekstrarárin 2016 til 2018. Nema meint skattsvik rúmlega 197 milljónum króna í rekstri Smíðalands og um tæplega 60 milljónum í rekstri 2findjob.

Við rannsókn málsins og fyrir dómi neitaði Þorkell aldrei beinlínis sök en sagðist ekki hafa vit á bókhaldi og að fjármálastjóri og bókari fyrirtækisins hefði borið ábyrð á skattskilum.

Þessu hafnar bókarinn en hann hefur sjálfur verið dæmdur í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 142,5 milljóna króna sektar í ríkissjóð fyrir brot í störfum sínum hjá fyrirtækjunum. Hefur hann áfrýjað þeim dómi til Landsréttar. Mennirnir saka hvor annan um að bera ábyrgðina.

Fram kemur í dómnum yfir Þorkeli að rúmlega 321 milljón króna hafi runnið úr fyrirtækjunum til félags bókarans. Kona sem vann sem verktaki um fimm vikna skeið hjá Smíðalandi segir bókarann hafa tekið út reiðufé af reikningi Smíðalands í milljónavís. Var konan ráðin til að koma skikki á mikla óreiðu í rekstrinum en hún segist hafa gefist upp eftir fimm vikur og gengið út. Telur konan að bókarinn hafi haft mikið vald yfir Þorkeli.

Gífurlega há fjársekt

Það var niðurstaða dómara að Þorkell bæri fulla ábyrgð á skattamisferlinu í rekstri fyrirtækjanna enda prókúruhafi og skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri. Einnig sé ljóst að hann hafi komið að fjármálum fyrirtækisins, meðal annars skattskilum og gerð virðisaukaskattskýrslna.

Þorkeli er virti til refsilækkunar að hann hefur gert upp við ríkissjóð 31 milljón króna af vangoldnum virðisaukaskatti.

Hann var samt dæmdur til að greiða himinháa sekt í ríkssjóð, 713 milljónir króna. Auk þess var hann dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi.

Sjá dóm héraðsdóms

Heimild: Dv.is