Fasteignasölum mun fækka umtalsvert á þessu ári vegna minnkandi umsvifa á fasteignamarkaði. Í eðlilegu árferði ættu að seljast um átta hundruð íbúðir á mánuði, en fyrstu tvo mánuði þessa árs eru þær innan við níu hundruð.
Fasteignamarkaðurinn hefur fram til þessa verið nokkuð líflegur. Reyndar svo, að Seðlabankinn hefur gripið til aðgerða. Þær eru svo sannarlega farnar að bíta og fasteignasalar fara ekki varhluta af því. Sala á húsnæði hefur dregist hratt saman.
Hannes Steindórsson, formaður Félags fasteignasala segir að þrennt valdi þar mestu; vaxtahækkanir Seðlabankans, verðbólga og regla um að aðeins megi ráðstafa ákveðnum hluta af ráðstöfunartekjum til húsnæðis. „En ég myndi segj að verðbólga og vextir væru stærstu þættirnir,“ segir Hannes.
Færri kaupsamningar en fasteignasalar
Hannes segir að miðað við fólksfjölda væri ekki óeðlilegt að 800 og jafnvel 1000 íbúðir væru seldar í hverjum mánuði. Samanlagt voru þær innan við 900 í janúar og febrúar. Fasteignasalar á landinu öllu eru á sjöunda hundrað. Undanfarin misseri hefur borið mikið á því að íbúðir hafi verið seldar yfir ásettu verði. Hannes segir þetta hafa breyst mikið.
„Í desember var það [hlutfallið] 17,6 prósent sem fóru á yfirverði. Í janúar var það komið niður í 12,6%. Og það mætti gera ráð fyrir því að yfirverð verði komið niður í 6-7% innan fárra mánaða.“
Hannes segir þó ekki ástæðu til að hafa áhyggjur til langs tíma. Nokkur góð ár séu að baki og markaðurinn verði búinn að rétta úr kútnum innan 18 mánaða.
Heimild: Ruv.is